Sá gífurlegi vöxtur, sem ferðaþjónustan sem atvinnugrein hefur notið á undanförnum árum, sýnir okkur kannski betur en nokkru sinni fyrr hversu mjög hagsmunir atvinnugreina eru samtvinnaðir. Allt frá 2010 hefur mikilvægi ferðaþjónustu vaxið hröðum skrefum og eru fá ef nokkur dæmi um sambærilegan vöxt á jafn skömmum tíma. Á þessum tíma hefur fjöldi ferðamanna sem leggja leið sína til Íslands fjórfaldast. Á sama tíma hafa tekjur þjóðarbúsins vaxið gífurlega í formi gjaldeyristekna, VSK-tekna og annarra beinna og óbeinna skatttekna. Þá hefur atvinnusköpun aukist til muna um allt land og afleiddar tekjur vaxið samhliða. Ferðamenn eru nú í auknum mæli að kaupa hvers kyns innlenda þjónustu, versla og njóta þeirrar afþreyingar sem í boði er.

Þá eru heildartekjur af hverjum ferðamanni innanlands að aukast á milli ára. Á fyrri hluta síðasta árs nam t.a.m. tekjuaukningin um 31% milli ára á meðan fjölgun ferðamanna á sama tímabili nam 27%. Vísbendingar gefa til kynna áframhaldandi aukningu í þessa átt á yfirstandandi ári. Það er okkar allra að nýta áfram þau tækifæri sem felast í fjölgun ferðamanna. Það hefur jákvæð og mikilvæg áhrif á hagkerfið allt, eykur velsæld og blómgar mannlíf. Vaxtarverkir eru óhjákvæmilegir en með yfirvegun, festu og samtakamætti okkar eru okkur allir vegir færir.