Mikill viðbúnaður var í París í vikunni en lögreglan er sögð hafa komið í veg fyrir árás Íslamska ríkisins á lestarstöð í borginni. Valls segir að minnst tvær árásir hafi verið stöðvaðar í vikunni og að um 15 þúsund manns séu nú undir smásjá lögreglu og leyniþjónustu Frakklands.

Fleiri saklaus fórnarlömb
Í Frakklandi hafa 1.350 manns verið til rannsóknar vegna mögulegra tengsla við hryðjuverkasamtök og 293 hafa verið fangelsaðir.
„Árásirnar verða fleiri og fleiri saklaus fórnarlömb. Það er eitt af hlutverkum mínum að segja Frökkum sannleikann,“ sagði valls.
Valls var í viðtali hjá Europe 1 útvarpsstöðinni og var hann spurður út í ummæli Sarkozy, sem vill stofna sérstaka dómstóla fyrir meinta vígamenn og franskir ríkisborgarar sem grunaðir eru um að vera vígamenn yrðu settir í sérstakar fangabúðir.
Valls sagði forsetann fyrrverandi hafa rangt fyrir sér og sagði að undir stjórn Sarkozy yrðu árásirnar líklega fleiri. Hann sagði Sarkozy hafa vanmetið ógnina þegar hann var forseti og að hann hafi skaðað varnir ríkisins með niðurskurði. Valls gaf ekki mikið fyrir uppástungur Sarkozy um sérstakar fangabúðir og sagði að hugmyndin væri grimmileg.