Viðreisn og Björt framtíð fengju svo hvor flokkur minnst fjóra þingmenn. Þar með væri 62 þingsætum úthlutað. Annaðhvort Viðreisn eða Björt framtíð fengju 63. þingmanninn en þar sem flokkarnir eru jafn stórir í könnuninni er ekki hægt að spá um það með vissu hvor fengi þingsætið. Yrðu þetta niðurstöðurnar væri ekki hægt að mynda tveggja flokka ríkisstjórn að loknum kosningum.
Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær að allmikil tíðindi fælust í könnuninni. „Ég myndi segja að það væru allmikil tíðindi í þessari könnun. Annað er jú það hversu mikið flökt er á fylginu. Svona nálægt kosningum þá er þetta óvanalega mikið flökt og það er engu hægt að slá föstu nú þegar,“ segir Eiríkur. „Hins vegar er að Björt framtíð rís upp og vel yfir þröskuldinn í þessari könnun og þá blasir við sú einstaka staða sem við höfum ekki séð áður, gangi þessi könnun eftir, að á næsta kjörtímabili verði sjö flokkar á Alþingi. Það felur í sér grundvallarbreytingu á flokkakerfinu.“

Hringt var í 1.258 manns þar til náðist í 801 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 3. og 4. október. Svarhlutfallið var 63,7 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til þingkosninga í dag? Ef ekki fékkst svar var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef ekki fékkst svar var spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða einhvern annan flokk? Það er gert í samræmi við aðferðafræði sem þróuð var á Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Alls tóku 58,6 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu