Sem fyrr er það spænski tölfræðingurinn Alexis Martín sem reiknar út stöðu 60 efstu liðanna og birtir niðurstöðuna á undan FIFA á Twitter-síðu sinni, en Spánverjanum skeikar aldrei um eitt stig.
Strákarnir okkar hafa aldrei verið ofar á listanum en þeir bæta eigið met um eitt sæti. Ísland stökk upp um tólf sæti eftir Evrópumótið í Frakklandi þar sem það kom allri álfunni á óvart og endaði á meðal átta efstu, en eftir EM í Frakklandi var Ísland í 22. sæti.
Íslenska liðið fór aðeins að síga niður listann eftir EM en það var í 27. sæti þegar kom að síðustu landsleikjaviku sem kláraðist formlega í gær. Þar innbyrtu strákarnir okkar tvo sigra á Finnum og Tyrkjum og skjótast nú upp um sex sæti.
Sem fyrr eru strákarnir okkar konungar norðursins en þeir eru ekki bara efstir af Norðurlandaþjóðunum heldur langefstir. Svíar fara upp um tvö sæti og sitja í 39. sæti en Danir fara niður um sex sæti og eru í 50. sæti á nýjum lista. Noregur, sem var í 70. sæti á síðasta lista, og Finnar, sem voru númer 85, eru ekki á topp 60 frekar en Færeyingar.
Ísland er einnig orðið næst besta liðið í I-riðli undankeppni HM 2018 en á meðan okkar menn fara upp um sex sæti fara Tyrkir niður um fjögur í 25. sæti. Tyrkland var í 21. sæti fyrir síðustu landsleikjaviku en íslenska liðið skýst nú upp fyrir Tyrki eftir glæsilegan 2-0 sigur á þeim.
Argentína heldur toppsætinu en Þjóðverjar taka annað sætið af Belgum sem falla niður í það fjórða. Brasilía heldur áfram að sækja í sig veðrið en Brassar fara upp um eitt sæti í það þriðja. England heldur sinni stöðu í 12. sæti heimslistans.
Topp tíu:
1. Argentína
2. Þýskaland
3. Brasilía
4. Belgía
5. Kólumbía
6. Síle
7. Frakkland
8. Portúgal
9. Úrúgvæ
10. Spánn
Este es el TOP-60 del Ranking FIFA que será publicado el próximo 20 de octubre. Para vosotros siempre lo mejor y antes que nadie ;-) pic.twitter.com/ttev62nGca
— MisterChip (Alexis) (@2010MisterChip) October 12, 2016