Körfubolti

Fékk að mæta að­eins seinna í vinnu eftir Ís­lands­meistara fögnuð

Aron Guðmundsson skrifar
Nokkrum klukkustundum eftir framlengdan oddaleik sem tryggði Haukum Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta var fyrirliðinn Þóra Kristín Jónsdóttir mætt til að sinna sinni vinnu sem efnaverkfræðingur hjá Carbon Recycling International.
Nokkrum klukkustundum eftir framlengdan oddaleik sem tryggði Haukum Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta var fyrirliðinn Þóra Kristín Jónsdóttir mætt til að sinna sinni vinnu sem efnaverkfræðingur hjá Carbon Recycling International. Vísir/Samsett mynd

„Maður hefur fleiri skyldum að gegna en á körfu­bolta­vellinum,“ segir Þóra Kristín, fyrir­liði Hauka sem varð í gær Ís­lands­meistari með sínu liði, fagnaði því vel í kjölfarið og var svo mætt í hina vinnuna sína nokkrum klukku­stundum síðar. Óvíst er á þessari stundu hvað tekur við á hennar ferli í boltanum en hjá Haukum líður henni vel.

Odda­leikur Hauka og Njarðvíkur fór alla leið í fram­lengingu og var frábær aug­lýsing fyrir ís­lenskan körfu­bolta. Þóra Kristín lyfti þar Ís­lands­meistara­titlinum ásamt liðs­félögum sínum í liði Hauka en eins og segir í lagi hjá hljómsveitinni Nýdönsk var djammað fram á nótt í kjölfarið en svo þurfti að mæta í vinnu daginn eftir.

Skilin gerast vart skarpari?

„Nei maður hefur skyldur á fleiri vígstöðvum heldur en á körfu­bolta­vellinum. Ég mætti nú aðeins seinna til vinnu heldur en venju­lega en gaman að koma hingað, þau mættu mörg hér á leikinn í og því gaman að hitta á þau og geta fagnað líka með þeim.“

Þóra Kristín starfar sem efna­verk­fræðingur hjá Carbon Re­cycling International, fyrir­tæki sem hannar verk­smiðjur sem binda kol­tvísýring í elds­neyti.

Nærðu að halda ein­beitingu hérna svona stuttu eftir að hafa tekið þátt í þessari geðveiki sem odda­leikurinn var?

„Já en auðvitað er þetta erfitt, maður er á ein­hverju skýi, leyfir sér að vera þar í dag og mögu­lega eitt­hvað smá á morgun en svo þarf maður að fara sinna því sem að maður á að sinna.“

Lífið heldur áfram þrátt fyrir að maður sé Ís­lands­meistari?

„Já þetta er kannski heldur ekkert stærsti titillinn sem maður eignast í lífinu en auðvitað gaman. Maður þarf að sinna öðrum hlutum líka.“

Fagnaðar­látunum ekki lokið hjá Þóru og hennar liðs­félögum, fram­undan loka­hóf og skemmti­dag­skrá um helgina.

„Við fögnuðum vel eftir að hafa unnið og svo tekur bara við áfram­haldandi fögnuður í dag og eitt­hvað um helgina. Skemmti­leg vika fram­undan.“

Engar samningaviðræður hafnar

Farsælu tíma­bili lokið en óvíst á þessari stundu hvað tekur við hjá Þóru Kristínu í boltanum. Hún skrifaði undir samning við Hauka í júlí árið 2023 sem er að renna sitt skeið.

„Ég hef ekki farið í samninga­viðræður við Hauka eða önnur félög. Mér líður vel á Ásvöllum, Haukar er mitt félag, sjáum hvað setur.“

Fyrir komuna aftur til Hauka hafði hún gert vel í Dan­mörku, orðið þar danskur meistari í tví­gang sem og danskur bikar­meistari.

Þú ert ekkert á leiðinni aftur út?

„Það verður bara að koma í ljós. Ég er ekki með nein til­boð á borðinu eins og er en skoða það ef það kemur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×