Skoðun

Sjúkraþjálfun styrkir heilsugæsluna

Unnur Pétursdóttir skrifar
Sjúkraþjálfun er verulega vannýtt úrræði í heilbrigðiskerfinu en gæti sparað háar upphæðir og aukið skilvirkni heilsugæslunnar. Víða erlendis er það þekkt að sjúkraþjálfarar starfa á heilsugæslustöðvum. Starf þeirra þar er einkum fólgið í fræðslu, ráðgjöf og móttöku skjólstæðinga með stoðkerfiseinkenni og lífstílssjúkdóma.

Það er þekkt vandamál hversu erfitt er að komast að hjá heimilislæknum hér á landi og ekkert útlit er fyrir því að það lagist á næstunni. Almennt er talið að yfir helmingur heimsókna til heimilislækna hér á landi sé vegna stoðkerfiseinkenna. Þar sem stoðkerfismóttökur með sjúkraþjálfara í broddi fylkingar eru til staðar erlendis hefur aftur á móti náðst mikill árangur við að losa talsvert um ásetinn tíma heimilslæknanna. Nýlega urðu þær breytingar í heilsugæslunni hérlendis að sálfræðingar voru ráðnir inn á stöðvarnar og er það fagnaðarefni. Sálfræðingar og sjúkraþjálfarar hafa alla tíð átt náið og gott samstarf og samstarf þeirra á heilsugæslustöðvum væri ákjósanlegt módel fyrir heilsugæsluna að þróa í baráttunni við lífsstílssjúkdóma.

Á skal að ósi stemma, segir í máltækinu og ekki er vanþörf á að halda því á lofti þegar hugað er að heilbrigðiskerfinu. Hátækni, lyf og skurðaðgerðir eru afar dýr úrræði og því nauðsynlegt að huga að því hvað hægt er að gera áður en til þeirra úrræða þarf að grípa. Forvarnir, fræðslu og sjúkraþjálfun má stórefla í þessum tilgangi.

Sé ráðamönnum alvara í því að efla heilsugæsluna þá er stórfelld efling sjúkraþjálfunar og aðkoma fleiri heilbrigðisstétta innan hennar lykillinn að lausn þess stóra verkefnis.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×