Skoðun

Þarf að bíða 100 ár eftir launajafnrétti?

Anna Kolbrún Árnadóttir og Sunna Gunnars Marteinsdóttir skrifar
Kvennafrídagurinn er í dag mánudaginn 24. október og eru konur hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14.38 og fylkja liði á samstöðufundi sem haldnir eru um allt land. Í þessu sambandi er gott að minnast þess að íslenskar konur vöktu athygli um allan heim 24. október árið 1975 þegar þær lögðu niður vinnu. Segja má að þessi samstöðufundur sem þá var haldinn hafi markað djúp spor í söguna enda setti hann samfélagið nánast á hliðina og muna flestir sem þá voru fæddir hvar þeir voru þennan dag.

Á þessum tíma var kallað eftir launajafnrétti og núna er það því miður ennþá sama krafan. Því það hefur gengið hægt að bregðast við launamismun kynjanna. Hófst það árið 1961 þegar samþykkt voru lög um launajöfnuð kvenna og karla sem átti að ná að fullu 1967. Síðan með setningu jafnréttislaga 1976 var kveðið á um sömu laun og sömu kjör fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Samt er töluvert launamisrétti enn staðreynd.

Það sem þó hefur breyst er, að í dag verða kynnt fyrstu fyrirtækin og stofnanirnar sem hafa tekið þátt í tilraunaverkefni stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar um launajafnrétti með innleiðingu jafnlaunastaðalsins.

Þetta verkfæri er stórt skref í þá átt að eyða kynbundnum launamun með raunverulegum aðgerðum.

Jafnlaunastaðalinn hefur það að markmiði að auka gagnsæi og mun vonandi breyta landslaginu á vinnumarkaði til framtíðar. og segja má að nú loksins sé komið fram alvöru tæki sem byggir, m.a. á opinberri staðlavottun.

Þessu ber að fagna en á sama tíma þarf að hafa það hugfast að áfram þarf að velta við hverjum steini til þess að jafna kjör kynjanna. Áfram eru þættir sem hafa áhrif, sömu þættir og höfðu áhrif fyrir 41 ári síðan og er kynskiptur vinnumarkaður enn talinn einn af aðal orsakaþáttum launamunar kynjanna.

 

Anna Kolbrún Árnadóttir og Sunna Gunnars Marteinsdóttir, Landssambandi Framsóknarkvenna.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×