Gærkvöldið var viðburðarríkt hjá pólska framherjanum Robert Lewandowski.
Lewandowski var að sjálfsögðu í byrjunarliði Póllands sem mætti Rúmeníu í Búkarest í undankeppni HM 2018.
Á 54. mínútu, þegar Rúmenar áttu hornspyrnu, var flugeld kastað inn á völlinn. Flugeldurinn sprakk í um meters fjarlægð frá Lewandowski sem greip um andlitið og féll við.
Pólski fyrirliðinn var nokkrar mínútur að jafna sig en hélt svo áfram. Atvikið virtist ekki hafa mikil áhrif á Lewandowski sem skoraði tvö síðustu mörk Pólverja í 0-3 sigri. Pólland er með tíu stig á toppi E-riðils.
Lewandowski hefur skorað sjö mörk í fyrstu fjórum leikjum Póllands í undankeppninni. Enginn evrópskur leikmaður hefur skorað fleiri mörk í undankeppni HM 2018.
Lewandowski hefur nú skorað í níu leikjum í undankeppni í röð. Hann skoraði níu mörk í síðustu fimm leikjunum í undankeppni EM 2016 og hefur því skorað 16 mörk í síðustu níu leikjum í undankeppnum.
Flugeldur sprakk rétt hjá Lewandowski í Búkarest | Myndir

Tengdar fréttir

Gamall Arsenal-maður með þrennu fyrir Þjóðverja | Úrslitin í undakeppni HM
Tíu leikir fóru fram í undankeppni HM í kvöld og það er hægt að finna öll úrslit og markaskorara inn á Vísi.