Körfuboltamaðurinn átti að brenna af fyrsta vítaskotinu sínu í leik með unglingalandsliði Íslands. Sá sem bauð símann ætlaði að veðja á að viðkomandi leikmaður myndi brenna af vítaskotinu og græða fúlgur fjár.
Þetta kom fram á foreldrafundi fyrir úrtakshóp ungmenna í lok síðasta árs en Körfuknattleikssamband Íslands heyrði ekki af þessu fyrr en eftir á og var „því ekki hægt að fara í neina sérstaka rannsókn á þessu,“ að sögn Hannesar S. Jónssonar, formanns KKÍ.
„Það var hringt í hann nokkrum dögum fyrir leikinn. Svo var hann að tala um þetta nokkru síðar í einhverju gríni og hélt að það væri einhver að gera grín í sér,“ segir Hannes í Morgunblaðinu í dag.

Veðmál eru alltaf að verða stærra og stærra vandamál í íþróttaheiminum en eins og fram hefur komið síðustu daga hafa sjö prósent fótboltamanna á Íslandi veðjað á eigin leiki. Frétt Stöðvar 2 um áhugaverða rannsókn á því má sjá í spilaranum efst í fréttinni.
Sjá einnig:Grunur kviknað um hagræðingu í þessum þremur leikjum
„Þetta eru vissulega háar tölur sem við sjáum í niðurstöðum rannsóknarinnar. Það staðfestir grun sem við höfum haft – að það er töluvert spilað og freistingin mikil fyrir íslenska knattspyrnumenn,“ segir Þorvaldur Ingimundarson, heilindafulltrúi KSÍ, í Fréttablaðinu í dag þar sem fjallað er um rannsóknina.
Rannsóknin er ein sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Daníel Ólason, prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands og einn aðstandenda rannsóknarinnar, segir að í fyrra hafi verið framkvæmd rannsókn erlendis þar sem margar tegundir íþrótta voru skoðaðar. Þar kom í ljós að fjögur prósent leikmanna höfðu veðjað á eigin leiki.
Niðurstaðan sýnir að það er mikil hætta á að veðmálahneyksli brjótist út á Íslandi, líkt og gerst hefur í nágrannalöndum Íslands. „Við verðum að horfast í augu við að það er líklegt að grunur vakni um óheilbrigða starfsemi af þessu tagi á Íslandi eins og annars staðar.“