„Ég vil halda því fram að við séum enn að rannsaka mannshvarf án þess að það blasi við að um sé að ræða refsiverða háttsemi í því sambandi,“ segir Grímur, aðspurður hvort málið sé rannsakað sem saknæmt.

Grímur segir að unnið sé að því að afla ganga í málinu. Beðið sé eftir frekari upplýsingum og upptökum úr öryggismyndavélum og að reynt sé að hafa uppi á fleiri myndavélum í nágrenninu.
Þá segir hann að ökumaðurinn á rauða Kia Rio bílnum sem lögreglan óskaði eftir að ná tali af í morgun hafi enn ekki gefið sig fram. Nú sé gagna beðið frá bílaleigum og í kjölfarið verði unnið út frá þeim.
Skipulögð leit að Birnu stendur nú yfir í miðbænum. Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að leitað verði á meðan bjart er en að frekari ákvarðanir hafi ekki verið teknar að svo stöddu. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni hefur þyrla gæslunnar ekki verið kölluð út til leitar.
Leitað í 300 metra radíus
Á fjórða tug sérhæfðra björgunarsveitarmanna leita nú að Birnu Brjánsdóttur í miðbæ Reykjavíkur. Leitarsvæðið nær frá þeim punkti þar sem síðast sást til Birnu á eftirlitsmyndavélum ganga ein síns liðs austur Austurstræti, Bankastræti og að húsi til móts við Laugaveg 31. Leitar björgunarfólk í 300 metra radíus út frá þeim punkti.
Að neðan má sjá svipmyndir frá leit björgunarsveitarfólksins í miðbæ Reykjavíkur. Rætt er við björgunarsveitarmanninn Stefán Baldur Árnason.
Málið er í algjörum forgangi hjá lögreglu og um klukkan ellefu í gærkvöldi voru björgunarsveitarmenn með sporhunda kallaðir út til að taka þátt í leitinni með lögreglu, ættingjum og vinum Birnu. Þá er vitað að sími hennar var notaður undir morgun í Hafnarfirði og er nokkurn veginn vitað á hvaða svæði það var.
Unnið er úr öllum vísbendingum að sögn lögreglu.
Birna er 170 cm á hæð, 70 kíló með sítt rauðleitt hár. Hún var klædd í svartar gallabuxur, gráa peysu, svartan flísjakka með hettu og í svörtum skóm þegar hún sást síðast. Þeir sem telja sig vita eitthvað um ferðir Birnu eru beðnir um að láta vita í síma 444-1000.