„Í dag leita hundruð manna að Birnu Brjánsdóttur sem nú hefur verið saknað í viku. Hugur okkar allra má vera með fjölskyldu Birnu og vinum, björgunarsveitarfólkinu okkar og öllum sem hafa unnið að rannsókn málsins. Samhugur, stilling og vilji til að láta gott af sér leiða skiptir mestu. Vörumst allt sem gæti sært þá sem síst skyldi eða alið á tortryggni og fordómum. Stöndum áfram saman, Íslendingar, sýnum styrk, von og samkennd,“ segir Guðni.
Umfangsmikil leit stendur nú yfir að Birnu en um 500 björgunarsveitarmenn koma að leitinni. Þá er rannsókn lögreglu í fullum gangi en mennirnir tveir sem eru í haldi hafi verið yfirheyrðir í vikunni. Ekki er gert ráð fyrir því að þeir verði yfirheyrðir um helgina nema eitthvað nýtt komi fram en þeir sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 211. greinar almennra hegningarlaga en sú grein fjallar um manndráp.