Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu bíður enn niðurstöðu úr rannsókn á lífsýnum af fatnaði og öðrum munum sem hald var lagt á í tengslum við hvarfið á Birnu Brjánsdóttur.
Sýnin voru send utan til rannsóknar fyrir þremur vikum. Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, Kári Stefánsson, hefur talað fyrir því að slíkar rannsóknir ætti að gera hér á landi enda sé bæði þekking og tækjabúnaður til staðar svo hægt væri að reka slíka rannsóknarstofu.
Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar deildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að vissulega væri betra ef niðurstöður lífsýna lægju fyrir í málinu. „Það væri heppilegt að geta gert þetta eins hratt og mögulegt er. Hins vegar vil ég benda á að við fengum mjög hraða afgreiðslu á fyrstu sýnum. Ég tek samt alveg undir að það væri mjög heppilegt ef hægt væri að gera þetta á Íslandi. Að ég tali nú ekki um ef þekkingin er fyrir hendi, að þá sé reynt að koma málum þannig fyrir að þetta sé hægt.“
Lögreglan er búin að fara yfir öll sönnunargögn í málinu og undirbýr nú gagnapakka sem hægt verður að senda til héraðssaksóknara. Skipverjinn, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi í þrjár vikur grunaður um að hafa banað Birnu, hefur ekki játað aðild að málinu.
„Mér finnst ekkert útilokað að það komi einhvern tímann fram játning. Kannski ber manni að tala varlega um þetta en við trúum því að gögn málsins bendi til þess að maðurinn sem við höfum í haldi hafi gerst sekur um þetta ódæði. Engu að síður getum við ekki heimtað játningu. Það er réttur hvers grunaðs manns að tjá sig ekki,“ segir Grímur.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
