Gamla Hverfisbarnum var lokað árið 2010 en hann var einn vinsælasti skemmtistaður höfuðborgarsvæðisins um árabil. Nýir eigendur ætla hins vegar ekki að reyna að endurvekja gömlu stemningu staðarins, að sögn Þórhalls Viðarssonar, rekstrarstjóra nýs Hverfisbars.

Eigendur Hverfisbarsins eru þeir sömu og eiga og reka skemmtistaðinn B5 við Bankastræti; þeir Andri Sigþórsson og Þórður Ágústsson. B5 hefur verið að sækja í sig veðrið á undanförnum árum en félagið, Bankastræti 5 ehf, greiddi eiganda sínum alls 57 milljónir króna í arð í fyrra, líkt og greint var frá á Vísi á þeim tíma.
Þórhallur segir að hugmyndin að nýjum Hverfisbar hafi kviknað fyrir rúmlega ári síðan en að þá hafi staðið til að opna veitingastað í húsnæðinu.

Sóknarfæri í breyttu umhverfi við Hverfisgötu
Fjöldinn allur af skemmistöðum hefur verið opnaður í þessu tiltekna húsnæði eftir lokun gamla Hverfisbarsins árið 2010. Má þar meðal annars nefna Buddhabar, Mánabar, Park og fleira en enginn þeirra virðist hafa haft erindi sem erfiði.
Breytingar á Hverfisgötu hafa verið í gangi um nokkurt skeið og er til að mynda búið að endurnýja allt yfirborð götu og gangstétta. Hótel og veitingastaðir hafa verið opnaðir samhliða þessum breytingum og þar af leiðandi hefur talsvert líf færst yfir götuna. Þórhallur segist því hafa séð ákveðið sóknarfæri í þessu betrumbætta umhverfi.

„Núna er búið að bæta bæði Hverfisgötuna og Smiðjustíginn, og þetta er í raun allt orðið hið flottasta. Hverfisgatan fór úr því að vera ein sóðalegasta gata borgarinnar í líklega þá flottustu og snyrtilegustu, þannig að við efumst ekki um að fólk komi til okkar.“
Formleg opnun verður á morgun en nánari upplýsingar um hana eru að finna á Facebook-síðu staðarins.
