Þrjú lög komust áfram en Heim til þín, í flutningi Júlí Heiðars Halldórssonar og Þórdísar Birnu Borgarsdóttur, var ekki eitt þeirra.
Unnur Birna segir í Facebook-færslu að flutningur lagsins hafi ekki allur skilað sér í sjónvarpsútsendingunni og það sé hljóðblöndun Ríkisútvarpsins, sem sér um framkvæmd keppninnar, að kenna.
„Ef það er svona flókið að mixa 6 raddir og playback í beinni útsendingu, þá held ég að þessi júróvísjónforkeppni ætti að vera í höndunum á öðrum en RÚV; eða RÚV ráði inn hljóðmann sem er vanur að mixa tónlist til að sjá um útsendingu og veit hvað hann er að gera. Ég spyr, hvað klikkaði? Og af hverju er þetta eingöngu svona í útsendingum frá RÚV? Svör óskast,“ segir Unnur Birna.
Undir þetta tekur sjálfur höfundur og flytjandi lagsins Júlí Heiðar sem segir hljóðblöndunina hafa verið hörmung.
Allt getur gerst í beinni útsendingu
„Þetta er alltaf svo mikið smekksatriði. Hvert einasta skipti við fáum athugasemd um þetta eða verðum vör við það förum við upp á tærnar og reynum að gera betur,“ segir Skarphéðinn.
Hann bendir á að keppnin síðastliðið laugardagskvöld hafi verið í beinni útsendingu. „Ef þetta ætti að vera 100 prósent þyrfti eiginlega að hafa þetta allt upptekið. En þetta er bein útsending eins og Eurovision-keppnin úti þar sem stuðningsmenn hverrar einustu þjóðar finna alltaf eitthvað að framkvæmd lagsins og geta hnýtt í eitthvað,“ segir Skarphéðinn.
Skarphéðinn nefnir að þetta sé ekki bundið við Ísland. Svona fari einnig úrskeiðis í stórum keppnum út í heimi og á verðlaunahátíðum. Nefnir hann sem dæmi atriði Metallica og Lady Gaga á Grammy-verðlaunahátíðinni fyrr í mánuðinum þar sem ekki heyrðist í aðalsöngvaranum James Hetfield.
Tónlistarstjóri keppendum innan handar
Hann segir keppendur í Söngvakeppninni fái að koma með ábendingar um hljóðblöndun á æfingum fyrir keppnina. Þá er RÚV einnig með tónlistarstjóra sem sé öllum keppendum innan handar.

Hefði mátt heyrast hærra í bakröddum
Hann segist geta tekið undir það að það hefði mátt heyrast betur í bakröddum lagsins Heim til þín. „Við tökum venjulega ekki þann slag að eitthvað hafi verið fullkomið í okkar eyru ef það hljómaði öðruvísi í eyrum annarra. Þetta er eitthvað sem gerist í keppninni okkar, þetta gerist í Eurovision-keppninni og gerist í beinni útsendingu þegar svo mörg atriði þurfa að ganga upp.“
Spurður hvernig RÚV myndi bregðast við því ef flutningur lags færi algjörlega úrskeiðis sökum tæknibilunar segir hann að ekki sé útiloka að lagið yrði endurflutt.
„Við metum hvert einasta tilvik fyrir sig. Ef við teljum að flutningur hafi verið meingallaður af okkar völdum útilokum við alls ekki svoleiðis. Þetta er keppni og við tökum hana alvarlega sem slíka.“