Spólað af stað í rétta átt Sigríður Jónsdóttir skrifar 7. mars 2017 10:30 Halldóra Geirharðsdóttir, Hilmir Snær Guðnason og Halldór Gylfason á blússandi ferð og flugi í farsanum Úti að aka í Borgarleikhúsinu. Mynd/Grímur Bjarnason Nú þegar líður á seinni hluta leikársins er kominn tími fyrir hinn árlega gleðileik Borgarleikhússins sem er að þessu sinni Úti að aka eftir Ray Cooney, frumsýnt nú á laugardag. Höfundurinn er Íslendingum vel kunnur en fjöldi verka hans s.s. Nei, ráðherra! og Beint í æð! hafa verið sýnd hér á landi oftar en ekki í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar sem mundar nú aftur pennann og Magnús Geir Þórðarson, fyrrverandi borgarleikhússtjóri, er einnig mættur á gamlar leikstjóraslóðir. Hinn tvíkvænti Jón Jónsson, leikinn af Hilmi Snæ Guðnasyni, kemst að því að börnin hans tvö hafa kynnst á internetinu og ætla að hittast. Upphefst, að eðli farsans, mikill æðibunugangur með allnokkrum æðisköstum til að fela sannleikann fyrir fjölskyldunum tveimur. Ekki verður tekið af Hilmi Snæ að hann gefur sig allan í leikinn. Líkamsbeiting hans er bráðfyndin og það gustar nánast af honum, svo mikill er æsingurinn. En frammistaða hans ber einn galla sem truflar sýninguna en hann verður að skrifa að mestu á leikstjórann. Magnús Geir Þórðarson er við stjórnvölinn og hefur hann mikla reynslu af leikstjórn slíkra verka. Góður farsi byggist ekki síður á tempói og tímasetningum en góðum leik. Listin liggur í því að byggja upp hraðann þar til allt nær suðupunkti. Vandamálið er að hraðinn er keyrður af stað allt of snemma, nánast frá byrjun, og geðshræring Jóns verður mjög fljótlega þreytandi. Annað er faglega gert en þegar mikilvægasta tannhjólið fer of geyst er erfitt að rétta sýninguna af. En Halldór Gylfason sýnir hvernig þessar reglur eiga að virka og stelur senunni. Hann dansar línuna þunnu á milli geðshræringar og lágstemmdra lyga. Leyndarmálið er nefnilega að lygin er stundum fyndnari sögð í lágum rómi og taugaveiklun frekar en með æsingi. Tímasetningar hans eru vægast sagt góðar og drepfyndnar. Þess væri þó óskandi að einhver kvenpersónanna hefði meira að gera og væri sterkara afl innan framvindunnar en raun ber vitni. Halldóra Geirharðsdóttir og Ilmur Kristjánsdóttir, sem snýr aftur á leiksviðið eftir hlé, eru báðar mjög hæfar leikkonur og kunna listina að gera eitthvað úr nánast engu. Ungmennin tvö sem allt havaríið snýst um leika Hilmar Guðjónsson og Elma Stefanía Ágústsdóttir af miklum móð en eru bæði svolítið einsleit þrátt fyrir ágæta spretti. Haft er eftir höfundi í leikskrá að ein af meginreglum farsa sé að persónur verði að vera raunsæjar og henni er framfylgt að mestu, fyrir utan eina persónu. Hinn ónefndi pabbi Steingríms, leikinn af Bergi Þór Ingólfssyni, virðist alveg á skjön. Bergur Þór kann augljóslega sitt fag en fim frammistaða hans er mikið takmörkuð af illa skrifaðri persónu. Að vanda heppnast þýðing Gísla Rúnars Jónssonar með ágætum en staðfærsluna hefði mátt skoða betur. Til dæmis virðast ferðalögin á milli Hafnarfjarðar og Mosfellsbæjar gerast á ljóshraða. Einnig er einn símabrandarinn þegar Jón hermir eftir starfsmanni á kínverskum veitingastað leifturskot í fortíðina sem var bæði óviðeigandi, óþarft og ófyndið. Tímaskekkja rétt eins og úreltir hommabrandarar en höfundur hlýtur að eiga þar töluverða sök. Snorri Freyr Hilmarsson sér um bæði leikmynd og búninga en pastellitirnir eru svo afgerandi að hönnunin hverfur nánast. Aftur á móti er sú ákvörðun að nota sömu stofuna fyrir bæði heimilin áhugaverð og gengur nokkuð vel upp. Einnig fer lítið fyrir lýsingu Björns Bergsteins Guðmundssonar og sömuleiðis tónlist Amabadama. Aftur á móti er hljóðvinnsla Ólafs Arnar Thoroddsen bæði nákvæm og sérlega vel unnin enda ekkert grín að koma öllum þessum símhringingum til skila. Úti að aka mun slípast til þegar leikarahópurinn hefur keyrt sýninguna oftar í gegn með fullan sal af fólki. Eins og sýningin stendur núna vantar aðeins of mikið upp á til að gallarnir gleymist. En bráðfyndin er hún, á köflum.Niðurstaða: Kátínuvélin höktir aðeins of oft en Halldór Gylfason stelur senunni. Birtist í Fréttablaðinu Leikhús Mest lesið Einstakur garður í Mosfellsbænum Lífið Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Steldu stílnum af Áslaugu Örnu Tíska og hönnun Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Lífið Óhrædd við að fara sínar eigin leiðir Lífið Sterkustu hjón landsins selja íbúðina Lífið Húðrútína Birtu Abiba Lífið Með stórstjörnum í væntanlegri kvikmynd Marvel Bíó og sjónvarp Vissu hvorki verðið á strætómiða né bjór Lífið Svar Bents við hatursorðræðu gegn útlendingum Lífið Fleiri fréttir Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira
Nú þegar líður á seinni hluta leikársins er kominn tími fyrir hinn árlega gleðileik Borgarleikhússins sem er að þessu sinni Úti að aka eftir Ray Cooney, frumsýnt nú á laugardag. Höfundurinn er Íslendingum vel kunnur en fjöldi verka hans s.s. Nei, ráðherra! og Beint í æð! hafa verið sýnd hér á landi oftar en ekki í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar sem mundar nú aftur pennann og Magnús Geir Þórðarson, fyrrverandi borgarleikhússtjóri, er einnig mættur á gamlar leikstjóraslóðir. Hinn tvíkvænti Jón Jónsson, leikinn af Hilmi Snæ Guðnasyni, kemst að því að börnin hans tvö hafa kynnst á internetinu og ætla að hittast. Upphefst, að eðli farsans, mikill æðibunugangur með allnokkrum æðisköstum til að fela sannleikann fyrir fjölskyldunum tveimur. Ekki verður tekið af Hilmi Snæ að hann gefur sig allan í leikinn. Líkamsbeiting hans er bráðfyndin og það gustar nánast af honum, svo mikill er æsingurinn. En frammistaða hans ber einn galla sem truflar sýninguna en hann verður að skrifa að mestu á leikstjórann. Magnús Geir Þórðarson er við stjórnvölinn og hefur hann mikla reynslu af leikstjórn slíkra verka. Góður farsi byggist ekki síður á tempói og tímasetningum en góðum leik. Listin liggur í því að byggja upp hraðann þar til allt nær suðupunkti. Vandamálið er að hraðinn er keyrður af stað allt of snemma, nánast frá byrjun, og geðshræring Jóns verður mjög fljótlega þreytandi. Annað er faglega gert en þegar mikilvægasta tannhjólið fer of geyst er erfitt að rétta sýninguna af. En Halldór Gylfason sýnir hvernig þessar reglur eiga að virka og stelur senunni. Hann dansar línuna þunnu á milli geðshræringar og lágstemmdra lyga. Leyndarmálið er nefnilega að lygin er stundum fyndnari sögð í lágum rómi og taugaveiklun frekar en með æsingi. Tímasetningar hans eru vægast sagt góðar og drepfyndnar. Þess væri þó óskandi að einhver kvenpersónanna hefði meira að gera og væri sterkara afl innan framvindunnar en raun ber vitni. Halldóra Geirharðsdóttir og Ilmur Kristjánsdóttir, sem snýr aftur á leiksviðið eftir hlé, eru báðar mjög hæfar leikkonur og kunna listina að gera eitthvað úr nánast engu. Ungmennin tvö sem allt havaríið snýst um leika Hilmar Guðjónsson og Elma Stefanía Ágústsdóttir af miklum móð en eru bæði svolítið einsleit þrátt fyrir ágæta spretti. Haft er eftir höfundi í leikskrá að ein af meginreglum farsa sé að persónur verði að vera raunsæjar og henni er framfylgt að mestu, fyrir utan eina persónu. Hinn ónefndi pabbi Steingríms, leikinn af Bergi Þór Ingólfssyni, virðist alveg á skjön. Bergur Þór kann augljóslega sitt fag en fim frammistaða hans er mikið takmörkuð af illa skrifaðri persónu. Að vanda heppnast þýðing Gísla Rúnars Jónssonar með ágætum en staðfærsluna hefði mátt skoða betur. Til dæmis virðast ferðalögin á milli Hafnarfjarðar og Mosfellsbæjar gerast á ljóshraða. Einnig er einn símabrandarinn þegar Jón hermir eftir starfsmanni á kínverskum veitingastað leifturskot í fortíðina sem var bæði óviðeigandi, óþarft og ófyndið. Tímaskekkja rétt eins og úreltir hommabrandarar en höfundur hlýtur að eiga þar töluverða sök. Snorri Freyr Hilmarsson sér um bæði leikmynd og búninga en pastellitirnir eru svo afgerandi að hönnunin hverfur nánast. Aftur á móti er sú ákvörðun að nota sömu stofuna fyrir bæði heimilin áhugaverð og gengur nokkuð vel upp. Einnig fer lítið fyrir lýsingu Björns Bergsteins Guðmundssonar og sömuleiðis tónlist Amabadama. Aftur á móti er hljóðvinnsla Ólafs Arnar Thoroddsen bæði nákvæm og sérlega vel unnin enda ekkert grín að koma öllum þessum símhringingum til skila. Úti að aka mun slípast til þegar leikarahópurinn hefur keyrt sýninguna oftar í gegn með fullan sal af fólki. Eins og sýningin stendur núna vantar aðeins of mikið upp á til að gallarnir gleymist. En bráðfyndin er hún, á köflum.Niðurstaða: Kátínuvélin höktir aðeins of oft en Halldór Gylfason stelur senunni.
Birtist í Fréttablaðinu Leikhús Mest lesið Einstakur garður í Mosfellsbænum Lífið Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Steldu stílnum af Áslaugu Örnu Tíska og hönnun Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Lífið Óhrædd við að fara sínar eigin leiðir Lífið Sterkustu hjón landsins selja íbúðina Lífið Húðrútína Birtu Abiba Lífið Með stórstjörnum í væntanlegri kvikmynd Marvel Bíó og sjónvarp Vissu hvorki verðið á strætómiða né bjór Lífið Svar Bents við hatursorðræðu gegn útlendingum Lífið Fleiri fréttir Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira