Skoðun

Sterka krónu, takk

Þröstur Ólafsson skrifar

Vegna þess hve utanríkisviðskipti eru stór hluti af þjóðarframleiðslu okkar þá erum við mjög háð gengi erlendra gjaldmiðla. Frá upphafi íslensku krónunnar hefur gengi hennar, með örfáum undantekningartilvikum, verið stýrt eftir kröfum og þörfum sjávarútvegsins. Þar hefur krafan um lágt gengi verið sungin svo lengi sem elstu menn muna. Og talsmenn Bændasamtakanna hafa kyrjað viðlagið „Við líka, við líka.“ Á þessum höfuðbólum hefur einnig verið að finna öflugustu formælendur fastræðis við krónuna sem gjaldmiðil, þ.e.a.s. veika krónu.



Neytendur hafa sjaldnast haft nokkurn talsmann á pólitíska sviðinu, sem bent hefur á að gengisdýfurnar eru borgaðar af okkur sem kaupum daglega erlendar neysluvörur eða skuldum vísitölu- eða gengistryggð lán. Þó þetta sé stór meirihluti þjóðarinnar, þá er eins og hann skipti engu máli. Hann verði bara að éta það sem úti frýs.



Veikur gjaldmiðill lamar

Til lengdar er veikur gjaldmiðill ekki æskilegur. Hann getur að vísu ýtt tímabundið undir útflutning. Hann heldur í bráð lífi í atvinnugreinum sem standast­ enga samkeppni, og/eða nenna ekki að gyrða upp um sig. Að öðru leyti hindrar hann nýsköpun og efnahagslega framþróun.



Innflutnings- og gjaldeyrishöft virka eins. Þau halda á lífi því sem ella myndi víkja. Þannig má útskýra að hluta það landlæga einhæfi, sem einkenndi íslenskt efnahagslíf á tuttugustu öld, eða allt fram til þess tíma þegar gengið styrktist, ýmist vegna mikils innstreymis erlends fjármagns, sem setti hagkerfið á skjön, eða vegna tekna af ferðamönnum. Í stað þess að bæta rekstrarumhverfi og hagræða, var gengið fellt.



Pólitískur þýstingur hefur æ verið til staðar til að laga gengið að veikburða atvinnugreinum. Ef við ætlum að sigla út á reginhaf með krónuna sem farareyri, þá verður henni að vera stjórnað af bankastjóra með mikla þekkingu á peningamálum og seðlabanka sem er óháður stjórnmálum líðandi stundar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×