Stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd ákvað á fundi sínum í morgun að fá Ólaf Ólafsson, fjárfestir, myndi fá að koma fyrir nefndina vegna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu þýska bankans Hauck und Aufhäuser að einkavæðingu Búnaðarbankans árið 2003.
Fundur Ólafs með nefndinni verður opinn fjölmiðlum að því er fram kemur í frétt RÚV en í Fréttablaðinu í morgun kom fram að Ólafur hefði formlega óskað eftir fundi með nefndinni síðastliðinn föstudag.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður nefndarinnar, og Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður sama flokks og 2. varaformaður, sögðu í samtali við Fréttablaðið fyrir viku að það gæti reynst reynst óskynsamlegt að hafa fundinn opinn fyrir fjölmiðlum og almenningi, en nú liggur fyrir að fundurinn verður opinn.
Jón Steindór Valdimarsson, varaformaður nefndarinnar, stýrir umfjöllun hennar um einkavæðingu Búnaðarbankans en ekki náðist í hann við vinnslu fréttarinnar.
