Stuðningur við nýjan flokk Emmanuel Macron Frakklandsforseta, La République en Marche, hefur aukist samkvæmt nýrri skoðanakönnun Harris.
Samkvæmt könnuninni mun La République en Marche og stuðningsflokkar hans, fá flest atkvæði í fyrri umferð frönsku þingkosninganna sem fram fara þann 11. júní.
32 prósent af þeim 4.600 sem þátt tóku í könnuninni segjast ætla að kjósa flokk Macron, eða þrjú prósent fleiri en í sambærilegri könnun Harris sem gerð var 11. maí síðastliðinn.
Macron kynnti ríkisstjórn sína í gær. Alls eru 22 ráðherrar í ríkisstjórninni, helmingurinn þeirra konur.

