Í hjólaferð með kollegunum
Lára datt af reiðhjóli sínu í Öskjuhlíð í maí síðastliðnum. Hún hefur starfað sem flugmaður hjá Icelandair og var í hjólatúr með hjólahópi flugfélagsins þegar slysið varð. Lára slasaðist alvarlega og lamaðist fyrir neðan brjóst en óvíst er hvort hún muni endurheimta mátt sinn aftur.

„Það var strax kallað á sjúkrabíl og það varð fljótt ljóst að hún var alvarlega slösuð. Hún lamaðist fyrir neðan brjóst og það er lítið vitað hvert framhaldið verður.“
Markmiðið að komast út í endurhæfingu
Samstarfskonur Láru, sem allar eru flugmenn, ákváðu að taka höndum saman og hefja styrktarsöfnun. Það eru þær Ida Björg, Anna Elvíra Herrera Þórisdóttir og Jara Fatima Brynjólfsdóttir sem ætla að hlaupa í maraþoninu og sú upphæð sem safnast rennur óskert til Láru.
„Lára er núna í endurhæfingu á Grensás en við viljum styrkja hana til þess að hún geti sótt endurhæfingu erlendis. Það er ekki það að hún fái slæma aðstoð hér heima heldur gerist það svo sjaldan að ungt fólk hér á landi lend ií svona slysum. Það er meiri reynsla á svona löguðu erlendis,“ útskýrir Ida.

Ida segir Láru takast á við áfallið með algjöru æðruleysi, og heyra má á henni að hún er snortin yfir jákvæðni og bjartsýni vinkonu sinnar.
„Þetta er að sjálfsögðu svakalegt áfall. En hún stendur sig eins og hetja og er alveg ótrúlega flott og dugleg. Hún er ofboðslega lífsglöð manneskja að eðlisfari og tekur á þessu sem verkefni með algjörri jákvæðni.“
Ida, Anna Elvíra og Jara Fatima ætla að hlaupa samtals 34 kílómetra í maraþoninu; hálfmaraþon, tíu kílómetra og þrjá kílómetra.
Þeim sem vilja leggja söfnuninni lið er bent á eftirfarandi reikningsnúmer:
Rn.: 0133-26-440717
Kt.: 440717-0710