Í viðtali við mbl.is segir Palli að útskýringin sé einfaldlega sú að hann sé of upptekinn. Hann hefur tekið þátt í göngunni nær óslitið frá árinu 1999 þegar fyrsta gleðigangan var gengin hér álandi og til ársins 2006 sat hann í skipulagsnefnd Hinsegin daga.
„Ef ég er að gera svona stóran skúlptúr eins og ég hef gert undanfarin ár þá venjulega byrja ég að vinna þessa skúlptúra í apríl, síðasta lagi í maí, og nú bara ber svo við að ég er grínlaust í 400% vinnu,“ segir Palli í samtali við Mbl.
Undanfarin ár hafa vagnar Palla verið gríðarstórir. Á síðasta ári keyrði hann á risavöxnum einhyrningi, árið þar áður var hann á stóru bleiku víkingaskipi og árið 2014 var það stór, hvítur svanur. Allir vagnarnir hafa haft einhverja djúpa merkingu og táknað stöðu hinsegin fólks í samfélaginu.

Páll er önnum kafinn við ýmis verkefni þessa daganna. Hann er meðal annars að vinna að útgáfu nýrrar plötu sem hann hyggst keyra persónulega í hús fyrir þá sem hafa pantað hana í forsölu og mun hann trylla lýðinni í Eyjum á Þjóðhátíð og víðar á landinu um verslunarmannahelgina. Þá er undirbúningur hafinn við uppsetningu Borgarleikhússins á Rocky Horror þar sem hann mun stíga aftur í hælaða skó Frank N Furter, sem hann lék eftirminnilega í uppsetningu Menntaskólans við Hamrahlíð árið 1990.
Hann segist ekki hafa getað komið stórum vagni inn í dagskrána þetta árið en hyggst mæta tvíefldur til leiks að ári.
„Eftir að hafa verið með svona risastór atriði í göngunni undanfarin ár, sem hafa bara farið stækkandi ef eitthvað er, gæti ég ekki farið í þessa göngu með einhvern lítinn pickup trukk af því ég hafði ekki tíma fyrir meira,“ segir Palli. „Ég vil frekar sleppa því að taka þátt en að minnka „standardinn“.“