Sameinað Silicon ehf., sem á og rekur kísilmálmverksmiðjuna í Helguvík, hefur fengið heimild til greiðslustöðvunar. Ástæðan er erfiðleikar í rekstri verksmiðjunnar, að því er fram kemur í tilkynningu frá United Silicon. Heimildin miðar að því að ná bindandi nauðasamningum við lánardrottna en vegna rekstrarerfiðleika var fyrirsjáanlegt að félagið myndi eiga erfitt með að standa í skilum við skuldareigendur.
„Þetta kemur á óvart,“ segir Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs í Reykjanesbæ. Hann gerir ráð fyrir því að bæjarráð fari yfir málið á fundi sínum á fimmtudaginn. Friðjón segir traustan rekstur verksmiðjunnar skipta bæjarfélagið miklu. „Það skiptir hundruðum milljóna fyrir Reykjanesbæ, en ekki á kostnað íbúanna eða samfélagsins. Við lifum það alveg af ef ekki er hægt að gera þetta í takti við lög og reglur.“
Miklir erfiðleikar hafa einkennt rekstur verksmiðjunnar frá því að hún var ræst í nóvember 2016. Íbúar í grennd við verksmiðjuna hafa kvartað undan mengun frá henni og hefur Umhverfisstofnun fylgst náið með stöðunni. Þá hefur tvívegis komið upp eldur í verksmiðjunni.
„Núna er bara óskandi að það verði ekki samið við þá og lífeyrissjóðirnir okkar verði ekki samþykkir því að peningarnir okkar fari í þetta,“ segir Einar M. Atlason, formaður Samtaka andstæðinga stóriðju í Helguvík. „Það hefur allt gengið á afturfótunum þarna frá upphafi.“
