Stóryrði hafa gengið á milli norður-kóreskra stjórnvalda og Donald Trump Bandaríkjaforseta eftir að Sameinuðu þjóðirnar samþykktu hertar refsiaðgerðir gegn þeim fyrrnefndu vegna eldflaugatilrauna þeirra.
Trump virtist þannig hóta Norður-Kóreu kjarnavopnaárás á þriðjudag þegar hann sagði „eld og heift“ munu rigna yfir landið sem heimsbyggðin hafi aldrei orðið vitni að áður héldu leiðtogar þess áfram að hóta Bandaríkjunum. Norður-Kóreumenn svöruðu með því að hóta að skjóta flugskeytum að Kyrrahafseyjunni Gvam.
Í gær bætti Trump enn í þegar hann sagði blaðamönnum að hann hefði ef til vill ekki gengið nógu langt með fyrri yfirlýsingum sínum um „eld og heift“. Sagði hann hlutir myndu koma fyrir Norður-Kóreumenn sem þeir hefðu „aldrei getað ímyndað sér að væru mögulegir“ ráðist þeir á Bandaríkin eða bandamenn þeirra.
„Hernaðarlausnir eru nú að fullu til staðar, læstar og hlaðnar, skyldi Norður-Kórea haga sér óskynsamlega. Vonandi finnur Kim Jong-un aðra leið!“ tísti forsetinn svo í dag.
Military solutions are now fully in place,locked and loaded,should North Korea act unwisely. Hopefully Kim Jong Un will find another path!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 11, 2017