Töluverð ölvun og annarlegt ástand einkenndi nóttina hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Þurfti hún meðal annars að bregðast við tilkynningu um mann sem hafði otað eggvopni að öðrum í Austurstræti á fimmta tímanum í morgun. Eggvopnsmaðurinn er sagður hafa verið í annarlegu ástandi en ekki er nánar tilgreint í dagbók lögreglu hvað manninum gekk til. Hann var handtekinn og gistir nú fangageymslu.
Það var svo skömmu fyrir klukkan 3 í nótt sem lögreglan stöðvaði ökumann við Laxakvísl í Árbæ. Hann reyndi í fyrstu að gefa upp ranga kennitölu en þegar rétt kennitala kom í ljós reyndist hann vera 16 ára og hefur því aldrei öðlast ökuréttindi. Þá var hann einnig undir áhrifum fíkniefna, ásamt því að einhver fíkniefni fundust í bílnum. Tveir 17 ára farþegar voru í bifreiðinni og var málið afgreitt að sögn lögreglu með aðkomu foreldra og tilkynningu til Barnaverndar.
Þá var ölvaður karlmaður handtekinn á heimili sínu í Miðborginni, grunaður um líkamsárás og heimilisofbeldi. Hann var að sama skapi fluttur í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.
Ölvaður ökumaður, sem ítrekað hefur verið sviptur ökuréttindum, reyndi að stinga af eftir að hafa ekið á annan bíl á Strandgötu í Hafnarfirði í gærkvöld. Ökumaður hins bílsins ákvað því að aka á eftir honum þangað til lögreglu bar að garði og handtók þann ölvaða.
