Í færslu á Facebook segist Björt hafa sent þau skilaboð, „bæði útávið og innávið,“ að engir afslættir skulu gefnir á mengunarstöðlum, lýðheilsuviðmiðum og aðgerðum í þá veru.
Ítrekað hafa komið upp vandamál í verksmiðjunni sem meðal annars hafa valdið lyktarmengun og veikindum hjá einhverjum íbúum Reykjanesbæjar.
Björg segir marga hafa sett sig í samband við sig síðastliðinn sólarhring en íbúar Reykjanesbæjar hafa haft háværar kröfur uppi undanfarnar víkur um lokun verksmiðjunnar í Helguvík.
Þannig var samþykkt ályktun á fjölmennum íbúafundi í liðinni viku þar sem biðlað var til almannavarna að grípa til aðgerða vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í bænum.
Bíður upplýsinga
Þá sendi Umhverfisstofnun forsvarsmönnum verksmiðjunnar bréf þar sem þeim var tilkynnt að rekstur verksmiðjunnar verði stöðvaður þann 10. september svo unnt sé að gera nauðsynlegar úrbætur. Mögulegt er að slökkt verði á verksmiðjunni fyrr stöðvist ofn hennar lengur en í klukkustund eða ef afl hans fer undir tíu megawött.
Björt segir sér ekki vera ljóst hver nákvæmlega staðan er hjá fyrirtækinu eða hvað hefur gerst. Hún hafi þó beðið Umhverfisstofnun um upplýsingar þess efnis og bíði nú svara.
Á meðan er fólk - „svipt frelsi sínu því það lokar dyrum, gluggum og þorir ekki að senda börn sín út í andrúmsloft sem það finnur greinilega sjálft að ógnar heilsu þeirra og líðan.“
Færslu umhverfisráðherra má sjá hér að neðan.