Vísir sagði frá því í dag að allt stefni í að feðginunum Haniye og Abrahim Malekym verði vísað úr landi á næstu dögum. Kærunefnd útlendingamála hefur staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um að snúa þeim til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.
Þúsundir Íslendinga hafa skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að veita stúlkunni hæli. Fjöldi fólks fagnaði jafnframt afmæli Haniye á Klambratúni í síðasta mánuði.
Krafa um að siðmenntuð lönd horfi sérstaklega til barna
Logi gerir mál Haniye og annarrar ungrar nígerískrar stúlku, Mary að umtalsefni í færslu á Facebook-síðu sinni. Samtökin No Borders greindu frá því í síðustu viku að fjölskylda Mary hefði búið hér í tvö ár en nú stæði til að vísa þeim úr landi aftur til Nígeríu.
Segir Logi að stúlkurnar tvær hafi verið á flótta allt sitt líf. Þær komi frá svæðum sem ólíklegt sé að veiti þeim öryggi og gott líf.
„Það verður að gera kröfu um það í siðmenntuðu landi að sérstaklega skuli horft til barna sem hingað koma á flótta. Það er ómannúðlegt að taka ekki þessum litlu stelpum opnum örmum, veita þeim öryggi, gera þeim kleift að blómstra og auðga samfélagið okkar,“ skrifar Logi.