Skoðun

Útrýmum kjarnorkuvopnum, án tafar!

Auður Lilja Erlingsdóttir og Stefán Pálsson skrifar
Þann 20. september næstkomandi verða merkileg tímamót í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna, sem kunna að skipta sköpum fyrir framtíð mannkyns. Þann dag gefst aðildarríkjum SÞ kostur á að undirrita sáttmála um bann við kjarnorkuvopnum. Samningur þessi er niðurstaða af viðræðum þjóða heims og var samþykktur af 121 ríki fyrr í sumar.

Því miður kusu íslensk stjórnvöld að sniðganga viðræður þessar og fylgdu þannig afstöðu Nató í málinu. Kjarnorkuvopnaeign er sem kunnugt er einn af hornsteinum hernaðarstefnu Nató og áskilur bandalagið sér rétt til að beita þessum vopnum að fyrra bragði. Grannþjóðir okkar sem ekki eru aðilar að Nató hafa þó þorað að styðja málið. Má þar nefna bæði Íra og Svía, en þeir síðarnefndu fengu lítt dulbúnar hótanir frá Trump-stjórninni vegna afstöðu sinnar.

Sáttmálinn um bann við kjarnorkuvopnum er viðbragð við þeirri staðreynd að þrátt fyrir gildandi afvopnunarsamninga hafa kjarnorkuveldin ekki gert neitt til að vinna að útrýmingu kjarnavopna. Þvert á móti hafa þau ausið fjármunum í þróun og rannsóknarstarf, með þeim afleiðingum að framleiðsla kjarnavopna verður sífellt auðveldari. Norður-Kórea er skýrasta dæmið um það.

Illu heilli verður Ísland ekki í hópi þeirra landa sem fyrst munu staðfesta samninginn. Hernaðarandstæðingar hvetja hins vegar stjórnvöld til að hverfa af núverandi braut fylgispektar við kjarnorkustefnu Bandaríkjanna og Nató, en skipa sér þess í stað í sveit með friðelskandi þjóðum heims – áður en það verður of seint.

 

Auður Lilja Erlingsdóttir er formaður Samtaka hernaðarandstæðinga.

Stefán Pálsson er ritari Samtaka hernaðarandstæðinga.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×