Eins og Vísir greindi frá í dag var Benedikt Sveinsson, fjárfestir og faðir forsætisráðherra, þriðji einstaklingurinn sem mælti með því að Hjalta yrði veitt uppreist æra.
Benedikt vildi ekkert ræða málið þegar Vísir hafði samband við hann í morgun. Hann sagðist mögulega ætla að senda frá sér yfirlýsingu sem hann svo gerði á fimmta tímanum eftir að Vísir greindi fyrstur miðla frá því að hann væri einn hinna þriggja.
Þar segir hann að Hjalti hafi mætt með bréf til sín í fyrra, tilbúið til undirritunar, sem Benedikt skrifaði undir.
„Hjalti Sigurjón Hauksson var um tíma tengdur kunningjafólki okkar hjóna frá skólaárum. Hann hefur í nokkur skipti leitað aðstoðar hjá mér, fyrst og fremst vegna fjárhagsmála eða í tengslum við atvinnuleit. Engin önnur tengsl hafa verið á milli okkar,“ segir Benedikt.
Samkvæmt heimildum Vísis gerir dómsmálaráðuneytið almennt engar athuganir á því hvort meðmælabréf, sem skilað er við umsókn um uppreist æru, hafi í raun og veru verið skrifuð af þeim sem skrifa undir bréfin.

Hjalti Sigurjón starfar sem atvinnubílstjóri en hefur reynst erfitt að halda sér í vinnu vegna sögu sinnar sem kynferðisbrotamaður. Hann var um tíma í starfi hjá Teiti Jónassyni. Vísir greindi frá því í ágúst að Hjalta Sigurjóni hefði verið vikið úr starfi hjá Teiti í fyrra.
Hjalti hafði þá gefið sig á tal við dóttur fyrrverandi stjúpdóttur sína, þá sem hann fékk fimm og hálfs árs fangelsi fyrir að brjóta á. Dóttirin lýsti manninum fyrir móður sinni.
„Ég sagði þeim að þetta væri stórhættulegur maður og ef þau rækjust á hann ættu þau að hringja í mig eða lögregluna og koma sér í burtu eins hratt og mögulegt er,“ sagði móðirin í samtali við Vísi.
Móðirin hafði samband við hópbílafyrirtækið. Var Hjalta í framhaldinu sagt upp störfum hjá Teiti.
Ekki í boði að kynferðisbrotamenn aki skólabílum
„Auðvitað kemur upp að menn gangi í öll störf og eins og allir vita er alvörumál að aka börnum. Það er ekki liðið að menn með slíka forsögu aki skólabílum,“ sagði í skriflegu svari frá hópbílafyrirtækinu til Vísis.
Framkvæmdastjóri Teits Jónassonar, Haraldur Teitsson, var sem fyrr segir einn þeirra sem skrifaði meðmælabréf fyrir Hjalta.
Sá þriðji, Sveinn Matthíasson, starfaði sem yfirmaður hjá Kynnisferðum, nú Reykjavík Excursions, í þrettán ár. Hjalti Sigurjón starfaði hjá fyrirtækinu um tíma. Benedikt, sem á hlut í fyrirtækinu, segir í yfirlýsingu sinni í dag að hann hafi aðstoðað Hjalta í gegnum árin við atvinnuleit.
Hvorki náðist í Harald né Svein við vinnslu þessarar fréttar.