Abadi sagðist aldrei ætla að ræða þær niðurstöður við ríkisstjórn sjálfstjórnarsvæðisns.
Leiðtogar Kúrda segja að niðurstaðan, 92 prósent sögðust vilja sjálfstæði, muni veita þeim sterkt umboð til að sækjast eftir sjálfstæði frá Írak og stofna loks eigið ríki.

Sumarið 2014, þegar írakski herinn flúði undan stórsókn ISIS-liða komu Peshmerga-sveitir írakskra Kúrda í veg fyrir að sjálfstjórnarsvæði þeirra félli. Eftir að hafa látið undan um nokkuð skeið tókst Kúrdum að snúa vörn í sókn og í raun stækka yfirráðasvæði sitt. Þar á meðal er borgin Kirkuk, en á nærliggjandi svæðum má finna ríkar olíulindir, sem Kúrdar komu í veg fyrir að ISIS-liðar eignuðust.
Nú vilja Kúrdar hins vegar eiga þær olíulindir og stjórnendur Írak eru ekki sáttir. Írakska þingið hefur beðið forsætisráðherrann að senda hermenn til Kirkuk, sem er undir stjórn Kúrda.
„Stjórnvöld verða að koma olíulindunum við Kirkuk aftur undir stjórn olíuráðuneytisins,“ segir í ályktun þingsins samkvæmt frétt Reuters.
Án ríkis í hundrað ár
Við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, þegar Ottóman-veldið féll gerðu þáverandi heimsveldi upprunalega ráð fyrir ríki Kúrda, sem iðulega er nefnt Kúrdistan, í Sevres-samkomulaginu (finna má kort í hlekknum) árið 1920. Því var þó breytt þremur árum seinna, með Lausanne-samkomulaginu, og varð stærstur hluti landsins sem átti að verða Kúrdistan hluti að Tyrklandi.
Kúrdar eru nú á stórum svæðum í Írak, Íran, Tyrk landi og í Sýrlandi, þar sem þeir hafa náð miklu yfirráðasvæði af ISIS-liðum. Talið er að á milli 25 og 35 milljónir Kúrda séu á því svæði, samkvæmt frétt BBC.
Á síðustu hundrað árum hafa allar tilraunir Kúrda til að stofna eigið ríki verið kramdar af miklu afli.