Leikkonan Carrie Fisher færði framleiðanda í Hollywood tungu úr nautgrip, sem hún hafði komið fyrir í öskju frá skartgripaversluninni Tiffany‘s, eftir að vinkona hennar sagði henni frá því að téður framleiðandi hafði reynt að nauðga sér.
Vinkonan, sem heitir Heather Robinson og er handritshöfundur, sagði að Fisher hafi tekið málin í sínar hendur eftir að framleiðandinn, sem hún nefndi ekki á nafn, reyndi að nauðga sér í bifreið.
Robinson sagði frá atvikinu í samtali við útvarpsstöð í Arizona. Að hennar sögn hafði Fisher fært framleiðandanum tunguna að eigin frumkvæði en auk tungunnar var í öskjunni miði sem á stóð: „Ef þú snertir mína elskulegu Heather framar, eða aðra konu, þá verður einhver af þínum [líkamshlutum] í mun smærri öskju“.
Robinson hefur ekki tjáð sig opinberlega um atvikið áður en það átti sér stað árið 2000. „Þetta gerðist svo hratt að ég blygðaðist mín. Ég hélt ég hefði gert eitthvað rangt. Ég hélt að með því að samþykkja að snæða með honum hádegismat væri ég að biðja um þetta. Þannig að ég þagði um árabil, vegna þess að ég vildi ekki að mér væri refsað fyrir þetta,“ sagði hún í þættinum.
Þótt Robinson hafi ekki viljað nafngreina framleiðandann tók hún fram að hann hefur unnið til Óskarsverðlauna.
Carrie Fisher lést í desember á síðasta ári en hún hlaut hjartastopp í millilandaflugi.