Niðurstöður mælinga Norsku loftrannsóknarstofnunarinnar á rokgjörnum lífrænum efnasamböndum vegna kísilverksmiðju United Silicon hafa borist Umhverfisstofnun sem og fyrirtækinu sjálfu.
Mælingarnar voru gerðar vegna mikilla lyktaráhrifa sem gætt hefur frá verksmiðjunni alveg síðan hún var gangsett í nóvember 2016, að því er fram kemur í frétt á vef Umhverfisstofnunar.
Þar segir að í skýrslu Norsku loftrannsóknarstofnunarinnar sé lýst mælingum sem gerðar voru inni í og við verksmiðjuna sjálfa en einnig í íbúðarhverfi í Reykjanesbæ.
Í heildina mældust um 200 efnasambönd í útblæstri verksmiðjunnar en ekkert eitt þeirra er hægt að benda á með óyggjandi hætti sem efnið sem veldur þeirri lykt sem hefur komið frá verksmiðjunni undanfarna mánuði. Norska loftrannsóknarstofnunin leggur hins vegar til frekari mælingar á tveimur efnum, formaldehýði og anhýdríðum.
Nánar má lesa um málið á vef Umhverfisstofnunar og kynna sér skýrslu Norsku loftrannsóknarstofnunarinnar hér.
