Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að stærstu fréttir undanfarinna daga séu ekki þær að áhrifamenn úr framboði hans hafi verið ákærðir. Merkilegra sé að Tony Podesta, áhrifamaður innan Demókrataflokksins, sé að hætta hjá þrýstifyrirtæki sínu vegna rannsóknar Roberts Mueller, sérstaks saksóknara sem rannsakar afskipti Rússa af forsetakosningunum og meintum tengslum Trump-liða við Rússa.
Greint var frá því á mánudag að Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Trumps, og viðskiptafélagi hans, Robert Gates, yrðu ákærðir meðal annars fyrir samsæri gegn Bandaríkjunum. Þá var George Papadopoulos, ráðgjafi framboðsins, ákærður fyrir að hafa sagt alríkislögreglunni ósatt.
Trump-liðar voru snöggir að sverja Papadopoulos af sér. „Fáir þekktu þennan unga, lágt setta sjálfboðaliða sem kallast George. Það hefur nú þegar komið í ljós að hann er lygari. Skoðið DEMÓKRATA,“ tísti forsetinn til að mynda. Sarah Huckabee Sanders, fjölmiðlafulltrúi forseta, sagði á mánudag að Papadopoulos hefði ekki verið neitt meira en sjálfboðaliði.
CNN greinir frá því að sjálfboðaliðastaða hans sé ekki óvenjuleg og að margir áhrifamenn innan framboðsins hafi ekki fengið greitt fyrir vinnu sína. Þá skipti það engu máli fyrir rannsókn Muellers.
Rannsóknin á Rússatengslunum og afskiptunum er umfangsmikil. Fulltrúar Facebook koma senn fyrir upplýsingamálanefnd öldungadeildar þingsins til að ræða notkun Rússa á Facebook í aðdraganda kosninganna. Í gögnum sem samfélagsmiðillinn birti í gær sést að 126 milljónir Bandaríkjamanna hafi séð færslur rússneskra málafylgjumanna á tímalínum sínum.
Segir málið snúast um Demókrata

Tengdar fréttir

Þetta þarftu að vita um Rússarannsókn Mueller
Rannsóknin á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum í fyrra hefur aftur ratað í kastljós fjölmiðla eftir að fyrstu ákærurnar í rannsókn bandaríska dómsmálaráðuneytisins og alríkislögreglunnar voru birtar á mánudag.

Trump-liðar ákærðir fyrir tólf lögbrot
Fyrstu ákærurnar í rannsókn sérstaks saksóknara á tengslum rússneskra yfirvalda við forsetaframboð Donalds Trump líta dagsins ljós.