Fréttir sem bárust í vor af gangsetningu kísilvers United Silicon í Helguvík urðu til þess að margir hrukku í kút á Húsavík. Nú er framundan að ræsa kísilver PCC á Bakka.
Hafsteinn Viktorsson, forstjóri PCC Bakka Silicon, segir stefnt að því að gangsetningarferlið hefjist þann 13. desember. Þegar hann er spurður hvort Húsvíkingar þurfi að óttast það sama og Keflvíkingar er svarið skýrt:
„Nei. Húsvíkingar þurfa ekki að hafa áhyggjur af því, - ekki frekar en mitt starfsfólk. Vandræðin sem hafa verið á Reykjanesi, held ég, hafa ekkert með það að gera að það hafi verið að starta kísilveri þar. Ég held að það hljóti að hafa verið eitthvað annað sem hafi farið úrskeiðis þar.“

„Svona verksmiðjur eru til út um allan heim og verið gangsettar margoft án þess að svona vandræði hafi verið. Og ég er alveg sannfærður um það, miðað við hvernig staðið er að þessu verkefni, - og allur ramminn í kringum þetta verkefni, - komi í veg fyrir það.“

„Við fundum mikinn stuðning. Úr þessu þrjúþúsund manna sveitarfélagi fengum við fjögurhundruð gesti, sem er bara mjög gott og sýnir áhugann á þessu verkefni. Og yfirgnæfandi; bara mikill stuðningur, frá öllum sem komu.“
Fjallað var um iðnaðaruppbygginguna í Þingeyjarsýslum í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 í kvöld.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: