Skoðun

Dagur mannréttinda barna er í dag

Erna Reynisdóttir skrifar
Þann 15. mars 2016 var samþykkt þingsályktun á Alþingi að 20. nóvember ár hvert skuli helgaður fræðslu um mannréttindi barna, en sá dagur er afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Barnaheillum – Save the Children á Íslandi var falið af þáverandi innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra að sjá um framkvæmd dagsins.

Í tilefni af degi mannréttinda barna í ár opnuðu Barnaheill – Save the Children á Íslandi mannréttindasmiðju fyrir öll börn allt frá leikskóla og upp í framhaldsskóla hvaðanæva af landinu. Send voru bréf til kennara til að hvetja þá til þátttöku sem fólst í því að vinna skapandi verkefni um mannréttindi barna og senda inn í fjársjóðskistu á vegum Barnaheilla.

Þetta árið var lögð sérstök áhersla á réttindi allra barna til þátttöku, að láta skoðanir sínar í ljós og að hafa áhrif, eins og segir í 12. og 13. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Yfirskrift mannréttindasmiðjunnar 2017 er því Raddir barna. Mannréttindasmiðjan er ekki keppni heldur eins konar samsýning og samfélagsþátttaka þar sem lögð er áhersla á samvinnu og að hvert og eitt barn fái að njóta sín á eigin forsendum.

Í dag verður fjársjóðskistan með verkum barnanna opnuð formlega á vefnum https://www.barnaheill.is/dagurmannrettindabarna.

Þaðan geta þau börn sem hafa aldur til deilt verkum sínum og foreldrar deilt verkum barna sinna að fengnu samþykki þeirra og hvetjum við til að myllumerkið #dagurmannrettindabarna verði notað. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á sömu vefslóð. Barnaheill hvetja alla leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla til að nýta Dag mannréttinda barna til að fjalla um og fræða nemendur um mannréttindi sín.



Höfundur er framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×