Það vakti verulega athygli í gær er Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari í handbolta, ákvað að velja línumanninn Róbert Gunnarsson í 28 manna hópinn sinn fyrir EM í janúar.
Það er ár síðan Róbert ákvað að gefa ekki kost á sér í landsliðið fyrir HM og hann tilkynnti á sama tíma að landsliðsskórnir væru komnir í hilluna.
Þó svo Róbert sé í 28 manna hópi Geirs er langur vegur frá því að hann sé á leið á EM. Það þýðir einfaldlega að hann sé einn þeirra leikmanna sem Geir getur valið á mótið.
„Geir heyrði í mér og spurði hvort ég væri til í að vera á 28 manna listanum. Ég sagði við Geir er ég hætti fyrir ári síðan að hann mætti alveg athuga með mig í neyðartilvikum. Núna er staðan sú að hann fékk leyfi til þess að setja mig á þennan lista og ekkert meira er ákveðið,“ segir Róbert en það er ekki sjálfgefið að hann geti gefið kost á sér á EM ef Geir vildi yfir höfuð velja hann í lokahópinn.
„Staðan verður bara tekin er líða fer á mánuðinn. Ég gaf Geir leyfi til þess að setja mig á 28 manna listann og við tökum svo stöðuna síðar. Það kitlar handboltamanninn Róbert að fara á eitt mót í viðbót en það þarf þá að geta gengið upp með fjölskyldulífinu. Það er allt í skoðun og er alls ekki auðvelt.“
Róbert: Ekki ákveðið að ég fari á EM

Tengdar fréttir

Róbert óvænt í 28 manna hópi Geirs
Geir Sveinsson landsliðsþjálfari hefur valið þá 28 leikmenn sem koma til greina í hópinn á EM í Króatíu í janúar.