Háttsettur alríkislögreglumaður sem vann við rannsókn Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum, var fjarlægður úr rannsóknarteyminu í sumar. Hann hafði skipst á skilaboðum við vinnufélaga sem hægt var að túlka sem andsnúin Donald Trump í fyrra.
Peter Strozk, aðstoðaryfirmaður gagnnjósna alríkislögreglunnar FBI, var færður í mannauðsdeild FBI í sumar eftir að innra eftirlits dómsmálaráðuneytisins skoðaði textaskilaboð sem hann hafði skipst á við samstarfskonu sem hann hélt við.
Skilaboðin voru send á meðan Strozk vann við rannsókn á tölvupóstnotkun Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trump, í kosningunum og í kosningabaráttunni í fyrra. Bæði New York Times og Washington Post sögðu frá málinu en upplýstu ekki hvað stóð í skilaboðunum, aðeins að þau hafi mátt lesa sem andsnúin Trump og hlynnt Clinton.
Talsmaður Mueller staðfestir að Strozk hafi verið færður til um leið og ásakanir komu fram á hendur honum, að því er kemur fram í frétt Reuters. Fyrir helgi gaf Mueller út fjórðu ákæruna á hendur bandamanni Trump. Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump, játaði sök að hafa logið að alríkislögreglunni um samskipti sín við rússneskan sendiherra.
Sú ákvörðun James Comey, þáverandi forstjóra FBI, að tilkynna um að rannsóknin á tölvupóstum Clinton, sem Strozk vann að, hefði verið opnuð aftur aðeins nokkrum dögum fyrir kjördag í fyrra hefur af mörgum verið talin hafa valdið straumhvörfum í kosningabaráttunni.
Mueller veik FBI-manni til hliðar vegna skilaboða um Trump

Tengdar fréttir

Segir Flynn ekki hafa aðhafst neitt ólöglegt
Donald Trump Bandaríkjaforseti tjáði sig um ákæruna á hendur Michael Flynn á Twitter-síðu sinni í dag.

Trump þrýsti á þingmenn um að hætta rannsókn á Rússatengslum
Bandaríkjaforseti bað nokkra þingmenn repúblikana um að ljúka rannsókn Bandaríkjaþings á afskiptum Rússa af forsetakosningunum í sumar.

Trump eftir nýjustu ákæruna: „Alls ekkert samráð“
Fjórir starfsmenn forsetaframboðs Donalds Trump hafa verið ákærðir. Trump fullyrðir að ekkert samráð hafi átt sér stað við Rússa í kosningabaráttunni.