Nói Síríus þarf að innkalla Piparkúlur með best fyrir dagsetningunni 24.05.2019 þar sem ofnæmisvalds er ekki getið á umbúðum sælgætisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nóa Síríus.
Er innköllunin gerð þar sem Piparperlum var vegna mistaka pakkað í Piparkúluumbúðir í hluta af framleiðslulotunni.
„Þar sem Piparperlur innihalda hveiti, sem er ofnæmisvaldur, en Piparkúlur ekki, er hans ekki getið á þeim umbúðum sem um ræðir.
Nói Síríus hefur þegar tilkynnt viðeigandi yfirvöldum um innköllunina og komið upplýsingum á framfæri til söluaðila um að viðkomandi vara verði tekin úr sölu.
Við hvetjum þá sem keypt hafa Piparkúlur að athuga dagsetningu á umbúðunum og koma pokum með dagsetningunni 24.05.2019 til fyrirtækisins. Við biðjumst velvirðingar á þessum mistökum og munum að sjálfsögðu bæta þeim það upp sem þegar hafa keypt vöruna,“ segir í tilkynningu Nóa Síríus.
