Hrafn er með kofann til leigu í gegnum leigusíðuna Airbnb sem nokkur þúsund Íslendingar nýta sér, ýmist endrum og sinnum eða hafa meginþorra tekna sinna af viðskiptum í gegnum síðuna.
Verðið er 22 þúsund krónur nóttin.

Í lýsingu á kofanum kemur fram að hann sé 39 fermetrar og þar geti allt að fjórir gist. Þar er stærðarinnar sturta, nuddpottur, hiti í gólfi, þvottavél og eldhús.
Þá sé stutt að fara út að strönd og staðsetningin sé frábær til að skima um eftir norðurljósum.
Engar veislur eða viðburðir eru þó leyfðar á lóðinni, reykingar bannaðar og vera gæludýra afþökkuð. Sjö hafa veit Hrafni umsögn og hafa þær verið á einn veg, fimm og aftur fimm stjörnur, frá því útleiga hófst í sumar.

Þá er Hrafni og konu hans Yairu endurtekið þökkuð gestrisnin.

Kofinn er á lóð Hrafns í Laugarnesinu þar sem Hrafn býr ásamt konu sinni.
Óhætt er að segja að lóðin sé einstök að því leyti að Hrafn hefur komið upp ýmsum skúlptúr í anda víkinganna sem verið hafa honum innblástur fjölda kvikmynda í gegnum árin.
Töluverður styr hefur staðið um lóðina og hefur Hrafn staðið í stappi við Reykjavíkurborg um árabil vegna óleyfisframkvæmda á lóðinni.

Íbúð Hrafns á Airbnb.