Í lögum um kjararáð segir að ráðið skuli í úrskurðum sínum taka mið af þróun kjaramála á vinnumarkaði. Í ályktun Viðskiptaráðs segir að nýlegir úrskurðir séu í engu samræmi við þróunina á vinnumarkaði.
„Nýlegar ákvarðarnir kjararáðs um launahækkanir biskups Íslands, forstjóra opinberra stofnana sem og launahækkanir þingmanna og ráðherra á síðasta ári eru hins vegar ekki í neinu samræmi við þróun á vinnumarkaði. Úrskurðirnir setja vinnumarkaðinn í uppnám fyrir komandi kjaraviðræður með ósætti sem ógnar efnahagsstöðuleika landsins.“
Þar segir einnig að til þess að lífskjarabati haldi áfram sé mikilvægt launahækkanir þróist í samræmi við getu hagkerfisins til þess að standa undir þeim.
Langt umfram viðmið SALEK-samkomulags
Viðskiptaráð tekur það fram að kjararáð hefði átt að taka mið af SALEK-samkomulagi aðila vinnumarkaðarins um að samningsbundnar launabreytingar myndu að hámarki nema 32 prósent hækkun á tímabilinu 2013-2018.
Með nýjum úrskurðum hafi hins vegar verið gengið fram hjá samkomulaginu þar sem grunnlaun biskups hafa hækkað um 53 prósent frá 2013 og þingfararkaup um 75 prósent. Á sama tíma hafa laun á almennum markaði hækkað um 22 prósent og laun á opinberum markaði um 28 prósent.
Í lok ályktunar Viðskiptaráðs segir að Alþingi þurfi að grípa til ráðstafana.
„Ef Alþingi ætlar sér að stuðla að auknu trausti til löggjafans og sátt á vinnumarkaði þá er endurskoðun á ákvörðunum kjararáðs óumflýjanleg. Síðustu úrskurðir falla illa að þeim bættu vinnubrögðum sem aðilar vinnumarkaðarins hafa unnið að á síðustu árum. Atvinnurekendur og stéttarfélög eru á einu máli í þessum efnum og ábyrgð nýs Alþingis því mikil. Viðskiptaráð skorar á þingmenn að grípa tafarlaust til ráðstafana og draga til baka úrskurði kjararáðs.“

