Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, situr fyrir svörum á opnum fundi stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar sem hefst klukkan 9:15. Fylgjast má með fundinum í beinni útsendingu í spilaranum hér fyrir neðan.
Mikill styr hefur staðið um skipan dómara í Landsrétt en Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hefði brotið lög við skipanina. Dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt mat 15 einstaklinga hæfasta til að taka sæti í dómnum.
Sigríður skipti fjórum þeirra út fyrir fjóra aðra einstaklinga en á meðal þeirra sem hún skipti út voru þeir Ástráður Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannesson. Hæstiréttur dæmdi ríkið til þess að greiða þeim 700 þúsund krónur vegna málsins en hinir tveir sem Sigríður skipti út, þeir Jón Höskuldsson og Eiríkur Jónsson, hyggjast einnig stefna ríkinu.
Stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd Alþingis kannar nú verklag og ákvarðanir dómsmálaráðherra við skipan dómara í Landsrétt og er opni fundurinn nú liður í því ferli.