Um er að ræða umfangsmestu átök á milli bandalags Bandaríkjanna gegn Íslamska ríkinu og Assad-liða frá því að átökin hófust þar í landi. Talið er að rússneskir málaliðar hafi verið meðal Assad-liða og reynist það rétt er það í fyrsta sinn sem Bandaríkin fella Rússa í Sýrlandi.
Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir enga Rússa hafa verið á svæðinu. Þar að auki segja þeir að um 25 hafi særst og engir hafi látið lífið.
Bandaríkin segja um 500 menn, studdir af stórskotaliði og skriðdrekum, hafi ráðist yfir Efrat-ána austur af borginni Deir al-Zour og á herstöð Syrian Democratic Forces þar. SDF eru regnhlífarsamtök Kúrda og Araba sem hafa tekið stóran hluta Sýrlands af Íslamska ríkinu.
Einn meðlimur SDF er sagður hafa særst í árásinni. Bandarískir hermenn voru einnig á staðnum en þá sakaði ekki. Á svæðinu sem árásin átti sér stað eru gjöfular olíulindir. Bandaríkin segjast hafa orðið vör við uppbyggingu Assad-liða á svæðinu og að þeir hafi látið Rússa, sem standa við bakið á Assad, vita af veru SDF þar.
Samkvæmt frétt BBC hefur Utanríkisráðuneyti Sýrlands sent bréf til Sameinuðu þjóðanna og farið fram á að árásirnar verði fordæmdar. Ríkisstjórn Assad segir að um stríðsglæp og glæp gegn mannkyninu sé að ræða.
Assad-liðar hafa á undanförnum dögum gert fjölmargar loftárásir á bæi í Ghouta héraði sem uppreisnarmenn stjórna. Syrian Observatory for Human Rights segir minnst 36 almenna borgara hafa dáið í árásunum í dag og að alls hafi 185 dáið frá því á mánudaginn.
Sömuleiðis var ríkisstjórn Assad sökuð um að beita efnavopnum gegn almennum borgurum fyrr í vikunni. Læknir á svæðinu sem blaðamaður Guardian ræddi við segir Ghouta vera að „drukkna í blóði“.