Skoðun

Vatnsveitan og Borgarlínan

Hjálmar Sveinsson skrifar
Deilurnar sem upp hafa komið um Borgarlínuna undanfarnar vikur eru merkilegar. Auðvitað er ekki við öðru að búast en að skoðanir séu skiptar um svo mikla framkvæmd. Í hugann koma miklar deilur í Reykjavík vegna vatnsveitunnar fyrir um 110 árum. Um þær má lesa í Reykjavíkursögu Guðjóns Friðrikssonar, „Bærinn vaknar“.

Áður fengu bæjarbúar vatn úr brunnunum. Fátækt fólk, svokallaðir vatnsberar, bar vatn heim til þeirra sem vildu og borguðu fyrir þjónustuna. Þetta var í raun fyrirkomulag frumstæðs einkarekstrar. Gallinn var sá að brunnarnir voru stundum mengaðir. Veturinn 1906 til 1907 kom upp taugaveikifaraldur af þessum sökum. Þegar Guðmundur Björnsson læknir og bæjarfulltrúi sýndi fram á að hver heimborinn vatnslítri var tiltölulega dýr og veruleg hætta á mengun miðað við vatnið úr fyrirhugaðri vatnsveitu fóru viðhorfin að breytast. Bæjarstjórn fékk einkaleyfi á vatnsveitu í Reykjavík, tekið var hátt lán í Íslandsbanka og lagður vatnsskattur á húseigendur. Auðvitað varð allt vitlaust – 2. október 1909 fór vatnið að streyma um bæinn ofan úr Gvendarbrunnum. Kostnaður við vatnsveituna fór talsvert fram úr áætlun en vatnsveitan breytti öllu. Hún létti líf bæjarbúa, ekki síst húsmæðranna, gerði vatnið heilnæmara og átti sinn þátt í eflingu iðnfyrirtækja og fiskvinnslu í bænum.

Samanburður á vatnsveitu og borgarlínu virkar eflaust langsóttur á einhverja en hann hjálpar samt til að bregða ljósi á hlutina. Gatnakerfi borgarinnar er farveitukerfi. Tilgangur þess er að flytja fólk og vörur á sem greiðastan hátt milli staða, en ekki endilega sem flest farartæki. Gatnakerfið er í raun takmörkuð auðlind. Það er ekki hægt að þenja það endalaust út. Þess vegna er mikilvægt að Borgarlínan verði til – fái bæði pláss og fjármagn. Hún verður gríðarlega öflug farveita sem nýtir mjög vel verðmætt borgarland og takmarkaða innviði. Hún léttir á umferðinni og minnkar svifryksmengun. Hún verður öllum til hagsbóta. Áður en vatnsveita kom í Reykjavík fengu reykvísk heimili um 20 lítra af vatni á dag. Eftir að hún kom fékk hvert heimili um 240 lítra á dag.

 

Höfundur er borgarfulltrúi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×