Myndræn tónlist, myrk og rómantísk Jónas Sen skrifar 13. febrúar 2018 08:00 Peter er framúrskarandi píanisti og Þóra er yndisleg söngkona, að mati dómarans. Visir/Anton Ljóðatónleikar Verk eftir Britten, Bartók, Schönberg, Debussy og Rakhmanínoff í flutningi Þóru Einarsdóttur og Peters Maté. Salurinn í Kópavogi sunnudaginn 11. febrúar Vonda veðrið undanfarna daga hefur sett strik í reikninginn hjá tónleikahöldurum. Áheyrendur á tónleikum Þóru Einarsdóttur sópran og Peter Maté píanóleikara í Salnum í Kópavogi voru með fæsta móti, varla fleiri en sjötíu. Þóra ávarpaði tónleikagesti í upphafi dagskrárinnar, sagðist hafa búist við því alveg til klukkan fimm að tónleikunum yrði aflýst. Sem betur fer rættist aðeins úr veðrinu og kvöldið var á áætlun. Kannski var það fámenninu að kenna, en það myndaðist aldrei nein sérstök stemning á tónleikunum, að því er undirritaður gæti merkt. Mögulega var dagskráin of sundurleit, hún var bland í poka og lögin áttu ekki margt sameiginlegt. Vel heppnaðir ljóðatónleikar eru andlegt ferðalag sem tónlistin fer með mann í; það átti sér ekki stað hér fyrr en of seint. Engum blöðum er þó um að fletta að Þóra er yndisleg söngkona, með unaðslega rödd og flotta tækni, djúpt listrænt innsæi og heillandi framkomu eins og hún hefur margoft sýnt. Peter er líka framúrskarandi píanisti, tækni hans er pottþétt og hann er afar sjóaður í samspili, enda komið fram á ótal kammertónleikum. Fyrst á dagskránni var On This Island eftir Benjamin Britten við ljóð eftir W. H. Auden. Þau eru úr samnefndri ljóðabók, sem upprunalega var gefin út undir heitinu Look, Stranger! í óþökk höfundarins. Útgefandinn galdraði fram titilinn þegar hann náði ekki í Auden, sem var þá hér á Íslandi. Gamansamur tónn var í lögunum sem listafólkið útfærði af léttleika. Engu að síður eru þetta ekki heppileg opnunarlög á ljóðatónleikum, laglínurnar eru kuldalegar og framvindan sjaldnast spennandi. Það var ekkert í tónlistinni sem heillaði, hvað þá að maður gleymdi stund og stað. Sömu sögu er að segja um hin lögin fyrir hlé, ungversk þjóðlög í útsetningu Béla Bartóks og Brettl-Lieder, þrjú kabarettlög eftir Arnold Schönberg. Lög Bartóks virkuðu sem fremur yfirborðsleg tilraun til að skapa mikla píanóumgjörð um fátækleg lög. Peter skilaði því frá sér af glæsimennsku en tónlistin risti engu að síður grunnt. Lögin eftir Schönberg voru líka óttalega tyrfin, þrátt fyrir að tónmálið væri miklu hefðbundnara en tónskáldið var þekkt fyrir. Sennilega var hann bara ekki á heimavelli í þessum lögum; þau náðu aldrei flugi. Nei, það var eftir hlé sem tónleikarnir urðu áhugaverðir. Ariettes Oubliées eftir Debussy voru full af fínlega ofnum litbrigðum. Þau fengu byr undir báða vængi í margbrotnum, fáguðum píanóleiknum og einstaklega tilfinningaríkum, en að sama skapi öguðum söngnum. Það var mikil upplifun. Þetta er myndræn tónlist og hún öðlaðist líf fyrir hugskotum manns. Hið sama var uppi á teningnum í fimm lögum eftir Rakhmanínoff, sem eru hver öðrum fegurri. Þóra söng af smitandi innileika og sannfærandi ástríðu; píanóleikur Peters var jafnframt stórbrotinn, bæði myrkur og rómantískur, akkúrat eins og hann átti að vera. Útkoman var frábær.Niðurstaða: Sundurleit dagskrá sem komst ekki almennilega í gang fyrr en eftir hlé. Mest lesið Dillaði sér við lag úr áramótaskaupi 2013 Lífið Sigmundur taki stríðnina alla leið Lífið „Álagið er þessi fjarvera“ Lífið Kosningamaskína hafi nálgast soninn í gegnum Smitten Lífið Kosningakviss: El Classico þegar turnarnir tveir mættust Lífið Datt í afturábakkapphlaupi við fréttamann Lífið Kosningakviss: Tókust á um Eurovision og Næturvaktina Lífið Kosningavökur flokkanna: Pílustaðir, hótel og kirkjur Lífið Fréttatían: Kosningar, verðbólga og körfubolti Lífið Bibba kannaði stemninguna á kosningamiðstöðvunum Lífið Fleiri fréttir Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira
Ljóðatónleikar Verk eftir Britten, Bartók, Schönberg, Debussy og Rakhmanínoff í flutningi Þóru Einarsdóttur og Peters Maté. Salurinn í Kópavogi sunnudaginn 11. febrúar Vonda veðrið undanfarna daga hefur sett strik í reikninginn hjá tónleikahöldurum. Áheyrendur á tónleikum Þóru Einarsdóttur sópran og Peter Maté píanóleikara í Salnum í Kópavogi voru með fæsta móti, varla fleiri en sjötíu. Þóra ávarpaði tónleikagesti í upphafi dagskrárinnar, sagðist hafa búist við því alveg til klukkan fimm að tónleikunum yrði aflýst. Sem betur fer rættist aðeins úr veðrinu og kvöldið var á áætlun. Kannski var það fámenninu að kenna, en það myndaðist aldrei nein sérstök stemning á tónleikunum, að því er undirritaður gæti merkt. Mögulega var dagskráin of sundurleit, hún var bland í poka og lögin áttu ekki margt sameiginlegt. Vel heppnaðir ljóðatónleikar eru andlegt ferðalag sem tónlistin fer með mann í; það átti sér ekki stað hér fyrr en of seint. Engum blöðum er þó um að fletta að Þóra er yndisleg söngkona, með unaðslega rödd og flotta tækni, djúpt listrænt innsæi og heillandi framkomu eins og hún hefur margoft sýnt. Peter er líka framúrskarandi píanisti, tækni hans er pottþétt og hann er afar sjóaður í samspili, enda komið fram á ótal kammertónleikum. Fyrst á dagskránni var On This Island eftir Benjamin Britten við ljóð eftir W. H. Auden. Þau eru úr samnefndri ljóðabók, sem upprunalega var gefin út undir heitinu Look, Stranger! í óþökk höfundarins. Útgefandinn galdraði fram titilinn þegar hann náði ekki í Auden, sem var þá hér á Íslandi. Gamansamur tónn var í lögunum sem listafólkið útfærði af léttleika. Engu að síður eru þetta ekki heppileg opnunarlög á ljóðatónleikum, laglínurnar eru kuldalegar og framvindan sjaldnast spennandi. Það var ekkert í tónlistinni sem heillaði, hvað þá að maður gleymdi stund og stað. Sömu sögu er að segja um hin lögin fyrir hlé, ungversk þjóðlög í útsetningu Béla Bartóks og Brettl-Lieder, þrjú kabarettlög eftir Arnold Schönberg. Lög Bartóks virkuðu sem fremur yfirborðsleg tilraun til að skapa mikla píanóumgjörð um fátækleg lög. Peter skilaði því frá sér af glæsimennsku en tónlistin risti engu að síður grunnt. Lögin eftir Schönberg voru líka óttalega tyrfin, þrátt fyrir að tónmálið væri miklu hefðbundnara en tónskáldið var þekkt fyrir. Sennilega var hann bara ekki á heimavelli í þessum lögum; þau náðu aldrei flugi. Nei, það var eftir hlé sem tónleikarnir urðu áhugaverðir. Ariettes Oubliées eftir Debussy voru full af fínlega ofnum litbrigðum. Þau fengu byr undir báða vængi í margbrotnum, fáguðum píanóleiknum og einstaklega tilfinningaríkum, en að sama skapi öguðum söngnum. Það var mikil upplifun. Þetta er myndræn tónlist og hún öðlaðist líf fyrir hugskotum manns. Hið sama var uppi á teningnum í fimm lögum eftir Rakhmanínoff, sem eru hver öðrum fegurri. Þóra söng af smitandi innileika og sannfærandi ástríðu; píanóleikur Peters var jafnframt stórbrotinn, bæði myrkur og rómantískur, akkúrat eins og hann átti að vera. Útkoman var frábær.Niðurstaða: Sundurleit dagskrá sem komst ekki almennilega í gang fyrr en eftir hlé.
Mest lesið Dillaði sér við lag úr áramótaskaupi 2013 Lífið Sigmundur taki stríðnina alla leið Lífið „Álagið er þessi fjarvera“ Lífið Kosningamaskína hafi nálgast soninn í gegnum Smitten Lífið Kosningakviss: El Classico þegar turnarnir tveir mættust Lífið Datt í afturábakkapphlaupi við fréttamann Lífið Kosningakviss: Tókust á um Eurovision og Næturvaktina Lífið Kosningavökur flokkanna: Pílustaðir, hótel og kirkjur Lífið Fréttatían: Kosningar, verðbólga og körfubolti Lífið Bibba kannaði stemninguna á kosningamiðstöðvunum Lífið Fleiri fréttir Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira