Sjálfstæðisflokkurinn er með mest fylgi allra framboða í borginni, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins og vefmiðilsins frettabladid.is. Rúmlega 35 prósent segjast ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og myndi hann fá níu af 23 borgarfulltrúum.

Segja má að þessir tveir flokkar yrðu tveir turnar í borgarstjórninni, en þriðji stærsti flokkurinn yrði VG. Hann er með 12 prósenta fylgi og fengi samkvæmt því þrjá menn.
Píratar eru með 8,9 prósenta fylgi og fengju tvo menn kjörna. Samkvæmt þessu hefðu Samfylkingin, VG og Píratar tólf menn og meirihluta í 23 manna borgarstjórn.
Miðflokkurinn er með 6 prósenta fylgi og fengi einn borgarfulltrúa. Viðreisn fengi líka einn borgarfulltrúa en er með 4,2 prósenta fylgi.
Framsóknarflokkurinn er með 3,4 prósenta fylgi og fengi ekki kjörinn borgarfulltrúa. Björt framtíð fengi ekki heldur kjörinn fulltrúa en flokkurinn er með 0,7 prósenta fylgi. Sósíalistaflokkurinn er með 0,5 prósenta fylgi í könnuninni og er eins og Björt framtíð nokkuð langt frá að fá kjörinn fulltrúa.
Hringt var í 1.322 manns með lögheimili í Reykjavík þar til náðist í 800 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 26. og 27. febrúar. Svarhlutfallið var 60,5 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir aldri. Alls tóku 63,4 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. Þá voru 7 prósent sem sögðust ekki ætla að kjósa eða skila auðu, 5 prósent sögðust óákveðin og 25 prósent vildu ekki svara spurningunni.