Skoðun

Ari Leví

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Á Alþingi hefur maður nokkur lagt út í þann fábjánaskap að spyrja um hitt og þetta. Mest þó um það hvernig peningum landsmanna er varið. Eins og einhvern varði um það? Þessum manni gengur misvel að fá spurningum sínum svarað. Hann spyr samt áfram. Þegar þessi blessaði þingmaður hafði spurt og þráspurt um eitt og annað lengi dags, og haft uppi orð um að hann myndi spyrja meira, fóru reiknimeistarar – þeir sem áttu að svara spurningunum um kostnaðinn – að reikna út hvað hver spurning kostaði. Plús hvert svar. Þeir þóttust þá vera að vinna vinnuna sína; stundum kallað „ábyrg meðferð opinberra fjármuna“.

Í viðleitni sinni við að svara ekki spurningum mannsins sem spurði, ákváðu þeir að reikna út hvað það hefði kostað þjóðarbúið ef Ari hefði verið á þingi. Þessi sem Ingibjörg Þorbergs söng um hérna á síðustu öld og spurði eins og hver annar Pírati um alls konar þvælu og gekk svo nærri foreldrum sínum að þau fóru undan, ýmist í flæmingi eða á Valíum. Fyrir svo utan að reiknilíkanið Ari drap nánast ömmu sína með spurningaflóði – og afi hans brotnaði víst undan fitufordómum barnsins.

Ern gamalmenni rámar eflaust í að Ari spurði móður sína: „Mamma af hverju er himininn blár?“ Nú er Björn Leví, nafnið á þessum kostnaðarsama í þinginu, ekki að spyrja mömmu sína að neinu. Hann hefði samt kannski betur gert það, kauplaust, áður en hann náði kjöri. En, það má samt nota spurningar Ara sem viðmið. Ekki vegna þess að þær séu sambærilegar í öllu heldur vegna heimskulegrar sannfæringar, spurula píratans og strák­óbermisins sem var alla að kæfa með krefjandi leiðindum:

„Þið eigið að segja mér satt.“




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×