Þjóðaröryggisráð Bretlands mun funda í dag með Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um nýjustu vendingar í rannsókn á eiturefnaárás á Sergei og Yuliu Skripal þann 4. mars síðastliðinn.
Til umræðu verður meðal annars hvort nægileg sönnunargögn liggi fyrir um hver beri ábyrgð á árásinni og hvort tímabært sé að grípa til
frekari aðgerða. Þetta kemur fram í frétt á vef BBC.
Sergei Skripal, fyrrverandi rússneskur njósnari, og dóttir hans Yulia liggja enn þungt haldin á sjúkrahúsi en ástand þeirra er þó talið stöðugt.
Rússar neita aðild
Leifar af efninu sem notað var til að eitra fyrir feðginunum fundust í gær á og í kringum borð sem þau sátu við á veitingahúsinu Zizzi í Salisbury þann 4. mars. Um 500 manns fengu í kjölfarið fyrirmæli um að þrífa allar eigur sínar í varúðarskyni.
Sergei Skripal var fangelsaður í Rússlandi árið 2006 fyrir að hafa útvegað leyniþjónustu Bretlands nöfn útsendara Rússa í Evrópu. Hann var frelsaður árið 2010 þegar Bandaríkin og Rússland skiptust á njósnurum sem höfðu verið handsamaðir. Rússar slepptu fjórum njósnurum og Bandaríkin tíu.
Rússnesk yfirvöld hafa þvertekið fyrir að eiga nokkra hlutdeild í tilræðinu en Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, hefur ýjað að því að England muni mögulega draga sig úr HM í fótbolta sem fer fram í Rússlandi í sumar.
