Tveir menn eru í haldi lögreglunnar á Suðurlandi í tengslum við andlát manns á sveitabæ í Biskupstungum í morgun. Rannsókn málsins stendur yfir en mennirnir tveir sem eru í haldi lögreglu eru bræður hins látna. Tveir bræðranna voru gestkomandi hjá þeim þriðja en maðurinn sem lést var á sjötugsaldri. Það var annar bræðranna sem nú eru í haldi sem tilkynnti um málið til lögreglu. Að sögn yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á suðurlandi eru ummerki um átök á vettvangi.
„Klukkan korter í níu í morgun þá fáum við tilkynningu um að maður sé látinn á sveitabæ í uppsveitum Árnessýslu, lögregla fer þarna á staðinn og sjúkraflutningamenn og það er staðfest að þarna er maður látinn og það eru ummerki um að það hafi verið átök á vettvangi,” segir Oddur Árnason yfirlögregluþjónn í samtali við Stöð 2.
Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi fer með rannsóknina sem staðið hefur yfir í allan dag og hefur notið aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þótt ummerki um átök hafi fundist á vettvangi segir Oddur of snemmt að segja til um hvort andlát mannsins hafi borið að með saknæmum hætti.
„Dánarorsök hún liggur ekki fyrir, það verður krufið á þriðjudag og þá skýrist þetta betur, sem sagt með hvaða hætti þetta hefur borið að,” segir Oddur. Búið er að ná sambandi við alla nánustu aðstandendur mannsins en skýrslutökur yfir bræðrum hans tveimur fóru fram síðdegis í dag. Ákvörðun um hvort farið verði fram gæsluvarðhald verður tekin að skýrslutökum loknum.
Dánarorsök liggur ekki fyrir
Tengdar fréttir

Ummerki um átök á bænum þar sem maður lést
Maðurinn sem lést og tveir menn sem bíða nú skýrslutöku hjá lögreglu eru bræður.

Tveir í haldi lögreglu vegna mannsláts í Árnessýslu
Tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi við rannsókn málsins.

Lögregla girðir af sveitabæ í Biskupstungum
Tilkynnt var um andlát manns í heimahúsi í Árnessýslu á níunda tímanum í morgun.