
Sjá einnig: Ráku menn BF úr öllum ráðum
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, staðfestir í samtali við Vísi að Viðreisn muni bjóða fram eigin lista í Hafnarfirði vegna stöðunnar sem upp hafi komið innan Bjartrar framtíðar. Þorgerður segir að raunar hafi alltaf verið ætlunin að bjóða fram undir listabókstafnum C, sem Viðreisn hefur notast við.
„En atburðarás síðustu daga, eftir þó mjög gott samstarf við ákveðna einstaklinga innan Bjartar framtíðar, hefur leitt til þess að Viðreisn fer fram undir merkjum Viðreisnar.“
Þorgerður segir lista framboðsins tilbúinn og að hann verði kynntur á næstu dögum. Aðspurð vill hún þó ekki tjá sig um það hvort einhverjir innan Bjartrar framtíðar eigi sæti á listanum.
Innanbúðarátök Bjartrar framtíðar hafa ratað í fjölmiðla síðustu daga. Greint var frá því í dag að meirihluti bæjarstjórnar í Hafnarfirði hefði samþykkt í gær, á miklum hitafundi, að víkja Borghildi Sturludóttur og Pétri Óskarssyni úr nefndum og ráðum sem þau hafa setið í fyrir hönd Bjartrar framtíðar. Forseti Bæjarstjórnar, Guðlaug Kristjánsdóttir lagði þetta til en hún og Einar Birkir Einarsson bæjarfulltrúi sögðu sig nýlega úr Bjartri framtíð.
Þá segir í færslu Bjartar Ólafsdóttur að afgreiðsla málsins liggi nú á borði innanríkisráðuneytisins.