Skoðun

Þarfasti þjónninn

Óttar Guðmundsson skrifar
Á Íslandi hafa menn alltaf trúað því að hesturinn væri yfirnáttúruleg vera. Hann var kallaður þarfasti þjónninn og var í raun eina samgöngutæki landsmanna um aldir. Bændur og búalið lögðu mikið kapp á að vera vel ríðandi á mannamótum. Skáldin ortu lofsöngva og sagðar voru hetjusögur af hestum.

„Viljugum hesti vilja flestir ríða,“ segir máltækið. Fátæklingar fóru hins vegar fótgangandi um fjöll og firnindi. Smám saman breyttust hestarnir í bíla sem lögðu undir sig samgöngukerfið og þjóðarsálina. Bíllinn settist í hásæti hestsins og lét fara vel um sig.

Landsmenn leggja enn ofurkapp á að vera vel akandi (ríðandi) sem fyrr. Meðan aðrar þjóðir draga úr bílnotkun og auka hjólreiðar og almenningssamgöngur vex bílainnflutningur á Íslandi. Nú eru 1,25 bílar á hvert mannsbarn í landinu enda hafa bílar aldrei verið fleiri. Vegakerfið er að kikna undan þessum þunga svo að gera þarf stórátak í samgöngumálum til að koma öllum þessum bílum fyrir. Rífa þarf hús og byggja hraðbrautir gegnum borgina og mislæg gatnamót. Fjölga þarf bílastæðum og jarðgöngum svo að ekki væsi um bílaflotann. Bíllinn er þarfasti þjónninn og sýnilegt stöðutákn sem ekki má taka af þjóðinni. Enginn vill láta sjá sig í strætó sem er nýtt samgöngutæki hinnar fótgangandi alþýðu fyrri alda.

Í yfirstandandi borgarstjórnarkosningum er fjöldi frambjóðenda sem berst hatrammlega gegn hinni svokölluðu borgarlínu sem er einungis gróf aðför að einkabílnum. Útlendingar eiga erfitt með skilja þessa kosningabaráttu enda átta þeir sig engan veginn á því að ást Íslendinga á hestinum fór yfir á bílana. Fyrir Íslendingum er bíllinn eins og nautgripir eru Indverjum. Einungis trúvillingar og útlendingar stugga við heilögum kúm og bílum.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×