Svandís segir mikilvægt að stjórnvöld fjalli um tillögur Embættis landlæknis, enda sé það lagt til í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að kostir þess að beita efnahagslegum hvötum til að efla lýðheilsu verði skoðaðir að því er segir í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Embætti landlæknis segir að vísindalegur grundvöllur þess að beita vel skipulagðri skattlagningu á matvæli ásamt fleiri aðgerðum til að bæta neysluvenjur sé að styrkjast og sé hvað sterkastur þegar mat er lagt á heilsufarslegan ávinning af skattlagningu sykraðra drykkja.

1. Stjórnvöld hækki álögur á gosdrykki þannig að þeir séu skattlagðir í samræmi við almenna skattheimtu í landinu, þ.e. beri 24% virðisaukaskatt í stað 11%. Einnig að lögð séu vörugjöld á gosdrykki þannig að hækkunin á þeim nemi í heildina a.m.k. 20% sem er þá í samræmi við það sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) ráðleggur aðildarríkjum.
2. Fjármunir sem koma inn séu nýttir til að lækka álögur á grænmeti og ávexti. Eyrnamerkja ætti hluta af álögunum fyrir starf á sviði heilsueflingar eins og gert er með gjöld á tóbak og áfengi. Þannig geta stjórnvöld skapað aðstæður sem hvetja til heilbrigðari lifnaðarhátta og aukið jöfnuð til heilsu. Þetta er einnig í samræmi við ráðleggingar WHO.
3. Samhliða slíkri skattlagningu er mikilvægt að upplýsa almenning um heilsufarslegan ávinning af minni sykurneyslu. Einnig er mikilvægt að fylgjast með og meta hvaða áhrif skattlagningin hefur á neysluvenjur