Níundi samningafundur ljósmæðra og samninganefndar ríkisins hófst í húsakynnum ríkissáttasemjara klukkan þrjú í dag. Samninganefnd ljósmæðra var vel fagnað þegar hún mætti til fundarins en hópur fólks tók á móti samningsaðilum þegar þeir mættu í karphúsið. Sjálfar mættu ljósmæður í bolum með áletruninni „Eign ríkisins.“
„Við fengum alveg skýrt orð um það í bréfi frá fjármálaráðherra um að við ættum að hlýða og vinna þegar við vorum að tala um að vinna ekki yfirvinnu,“ segir Guðrún Guðlaugsdóttir ljósmóðir. „Það var sagt eiginlega næstum því berum orðum að við værum eign ríkisins.“

Fjöldi ljósmæðra hefur sagt upp og mun láta af störfum ef ekki tekst að semja. Katrín kveðst óttast það verulega að fleiri bætist í hópinn.
„Þetta er hræðileg staða og hræðileg þróun, þannig að það er gríðarlegur þrýstingur á að það fari að koma lausn í þessu máli af því bara eins og hefur alltaf verið þá er alltaf stór hluti sem að skilar sér ekki aftur inn í stéttina og stéttin er það lítil að við höfum ekki bolmagn til að bera það,“ segir Katrín.

„Því miður, þetta er eins og slys sem að maður horfir á í hægri sýningu, vegna þess að maður veit það að það er ákveðinn hópur sem er að hætta eftir tvo mánuði, eftir þrjá mánuði og svo framvegis, þannig að við höfum ráðrúm til að undirbúa okkur. Það verður samt að segja að það er ekkert hægt að undirbúa það að jafn mikilvæg fagstétt hverfi að verulegu leiti úr starfi, þannig að við viljum ekki hugsa þá hugsun til enda og ég geri nú ráð fyrir að deiluaðilar muni ná sáttum sem fyrst. Ég hvet þá til þess,“ segir Páll.

Þá mættu stjórnendur Facebook-hópsins „Mæður & feður standa með ljósmæðrum” færandi hendi á fæðingardeild Landspítalans í dag með kökur og brauðmeti til ljósmæðra.
Sætar syndir og Brauð & co lögðu til bakkelsið að sögn Írisar Tönju Í. Flygenring, eins forsprakka hópsins, en yfir 18 þúsund manns eru skráðir í hópinn á Facebook.